Yfir 200 látnir í Tyrklandi

Orkumálaráðherra Tyrklands, Taner Yildiz, segir að þverrandi líkur séu á að einhver finnist á lífi eftir sprengingu í kolanámu í gær. 201 hefur fundist látinn en alls voru 787 inni í námunni þegar sprengingin varð. Hundruð eru enn inni í námunni.

Svo virðist sem bilun í rafmagni hafi  valdið sprengingunni í námunni sem er í Soma í Manisa héraði, í um 450 km fjarlægð frá höfuðborginni Ankara. Björgunarmenn voru að störfum í alla nótt en hundruð námamanna eru fastir niðri í námunni sem er í einkaeigu. 

Yildiz kom fram í sjónvarpi í morgun þar sem hann staðfesti að 201 væri látinn og að um 80 hefði verið bjargað á lífi. Einungis hafi náðst til 360 námamanna af þeim 787 sem voru inni í námunni. Af þessum 360 er staðfest að 201 er látinn. Hann segir að dánarorsök flestra sé kolefniseitrun en súrefni er dælt inn í námuna til þess að reyna að aðstoða þá sem eru enn á lífi, lokaðir inni. Vegna rafmagnsleysis er ekki hægt að komast hefðbundna leið út úr námunni en þeir sem eru þar inni eru á um 2 km dýpi og í um 4 km fjarlægð frá innganginum inn í námuna.

Sprengingin varð um klukkan 12:30 að íslenskum tíma í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert