Breskur Schindler heiðraður

Gyðingabörn í útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz.
Gyðingabörn í útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz. Wikipedia

Til stendur að heiðra Nicholas Winton, sem bjargaði hundruðum gyðingabarna í Tékklandi frá þýskum nasistum í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar, fyrir afrek hans. Forseti Tékklands, Milos Zeman, tilkynnti Winton þetta í dag í afmæliskveðju til hans en hann varð 105 ára í dag. 

Fram kemur í frétt AFP að athöfnin fari fram 28. október næstkomandi en um er að ræða orðu hins hvíta ljóns. Winton, sem er breskur gyðingur af þýskum uppruna, ferðaðist fyrir stríð til þáverandi Tékkóslóvakíu árið 1939 sem starfsmaður bresku kauphallarinnar. Þar skipulagði hann ferðir 669 barna með lestum til Bretlands en flest þeirra voru gyðingar. Þannig var þeim bjargað frá einangrunarbúðum nasista og að öllum líkindum dauða.

Fleiri börn áttu að fara til Bretlands með lest 3. september 1939 eftir að Bretar höfðu lýst yfir stríði á hendur Þjóðverjum í kjölfar innrásar þýska hersins í Pólland. Lestin komst hins vegar ekki á leiðarenda þar sem landamærum hafði verið lokað. Börnin, 250 að tölu, sáust aldrei framar.

Winton upplýsti engan um þetta afrek fyrr en eiginkona hans fann gögn um það á háalofti íbúðarhúss þeirra hálfri öld síðar. Hann hefur gjarnan verið kallaður hinn breski Schindler með skírskotun til Þjóðverjans Oskars Schindlers sem bjargaði hundruðum pólskra gyðinga á árum síðari heimsstyrjaldarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert