Austurríski herinn blankur

Austurrískir hermenn.
Austurrískir hermenn. Doppeladler.com

Her Austurríkis er í alvarlegum fjárhagserfiðleikum. Svo miklum raunar að hersveitir hans hafa ekki fjármagn til þess að greiða fyrir eldsneyti á farartæki sín. Fyrir vikið þurfa þær gjarnan að fara fótgangandi þangað sem þær þurfa að komast. Ástæðan er niðurskurður undanfarinna ára.

Haft er eftir varnarmálaráðherra Austurríkis, Gerald Klug, á fréttavefnum Thelocal.at að við núverandi aðstæður standi herinn undir sér fjárhagslega. Heildarframlag til hersins á fjárlögum þessa árs er rúmlega 1,9 milljarður evra og þar af fara 1,3 milljarðar í starfsmannahald. Ekkert fjármagn verður hins vegar fyrir hendi til fjárfestinga í búnaði eða öðru slíku.

Black Hawk-herþyrlur austurríska hersins munu með sama áframhaldi ekki fá nauðsynlegt viðhald. Frá árinu 2018 geta þær ekki lengur notast við nætursjónauka samkvæmt úttekt varnarmálaráðuneytisins og frá 2020 verður ekki lengur hægt að fljúga þeim. Þegar hefur fjöldi farartækja hersins verið minnkaður verulega og viðgerðum á farartækjum sem hafa bilað frestað vegna kostnaðar við varahluti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert