Hann vildi ekki lifa í myrkrinu

Kelvin Doe er 17 ára.
Kelvin Doe er 17 ára. Skjáskot af YouTube

Kelvin Doe, þrettán ára unglingsdrengur frá Síerra Leóne í Vestur-Afríku, var orðinn þreyttur á því að þurfa að lesa við kertaljós. Nóg er af rafmagnslínum í borginni, en rafmagnið er óstöðugt. Hann átti sér einnig draum um að verða plötusnúður. Nú, fjórum árum síðar, er hann frægur verkfræðingur, aðeins sautján ára að aldri.

Rótaði í ruslahaugum borgarinnar

Kelvin fæddist þann 26. október árið 1996 í Freetown, höfuðborg Síerra Leóne og er hann yngstur fimm systkina. Eftir skóla fór Kelvin oftar en ekki að ruslahaugum borgarinnar, rótaði þar dágóða stund og sneri heim á leið með úttroðna vasa.

Í augum flestra var þetta aðeins rusl, en Kelvin leit svo á að hann gengi heim á leið með vasa fulla af tækifærum. Fjölskylda hans var fátæk og því þurfti hann að leita á haugana til að ná sér í efnivið.

Hlutirnir voru raftæki, eða partar úr þeim. Raftæki sem aðrir höfðu hent þar sem þau virkuðu ekki lengur. Kelvin fór heim og nýtti hlutina í raftæki sem hann hannaði og smíðaði sjálfur.

Myrkur mörg kvöld í mánuði

„Í Síerra Leóne höfum við ekki mikið rafmagn. Ljósin kvikna einu sinni í viku og síðan er myrkur út mánuðinn,“ sagði Kelvin sjálfur í viðtali. Hann tók því til sinna ráða og smíðaði rafhlöðu úr rusli svo hann, fjölskylda hann og aðrir íbúar borgarinnar gætu notið ljóssins.

Í dag er Kelvin einnig þekktur undir nafninu DJ Focus en hann hannaði útvarpssendi svo hann gæti rekið sína eigin útvarpsstöð. Búnaðinn smíðaði hann einnig úr hlutum af ruslahaugunum. Á útvarpsstöðinni spilar hann tónlist og miðlar fréttum til samfélagsins í borginni. Kelvin smíðaði einnig rafal til að halda sendinum gangandi. 

Í Síerra Leóne er útvarpið mikilvægt. Það færir íbúunum fréttir og fjölskyldur safnast saman til að hlusta á tónlist. Því lagði Kelvin áherslu á að þekkja rafbúnaðinn, vita hvernig hann gæti lagað útvörp og smíðað þau.

„Ef við höfum útvarpsstöð í samfélaginu, þá getur fólk rökrætt um mál sem varða það og Síerra Leone í heild sinni,“ sagði Kelvin í viðtali. Hann stefnir einnig að því að hanna vindmyllu svo fleiri í borginni geti nýtt rafmagnið. 

Sautján ára og kennir verkfræði í Harvard

Kelvin hefur vakið athygli víða um heim. Hann vann meðal annars, ásamt liði sínu, frumkvöðlaverðlaunin Global Minimum Innovate Salone árið 2012. Þá var hann einnig valinn til að ferðast til Bandaríkjanna árið 2012 og og flytja erindi á ráðstefnu.

Hann hefur einnig fengið að heimsækja MIT háskólann í Bandaríkjunum sem gestanemandi. Þar dvaldi hann í þrjár vikur, lærði og kynnti það sem hann hefur sjálfur hannað. Þá hefur Kelvin einnig kennt verkfræðinemum í Harvard.

Kelvin flutti erindi á TEDxTeen í fyrra. Þar sagði hann sögu sína og sagðist trúa því að í gegnum hönnun væri hægt að byggja upp landið Síerra Leóne.

YouTube myndskeið, þar sem rætt er við Kelvin um uppgötvanir hans, hefur verið skoðað rúmlega 7 milljón sinnum. Í dag nemur Kelvin við Prince of Wales skólann í Sierra Leone og mun eflaust hanna fleiri tæki áður langt um líður.

Erindi Kelvin Foe á TEDxTeen árið 2013
Viðtal við Kevin Foe

Kelvin nýtti hluti af ruslahaugum Síerra Leóne.
Kelvin nýtti hluti af ruslahaugum Síerra Leóne. Skjáskot af YouTube
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert