Krefst þess að þing verði leyst upp

Marina Le Pen í höfuðstöðvum Þjóðfylkingarinnar í kvöld.
Marina Le Pen í höfuðstöðvum Þjóðfylkingarinnar í kvöld. Mynd/AFP

Það stefnir allt í það að Þjóðfylkingin (Front National), undir stjórn Marinu Le Pen, vinni stórsigur í Evrópuþingkosningunum í Frakklandi. Samkvæmt útgönguspám fær flokkurinn 25% atkvæða og yrði það í fyrsta sinn í sögunni sem flokkurinn bæri sigur úr býtum í kosningum til Evrópuþings.

Hinn stóri stjórnarandstöðuflokkurinn, mið-hægriflokkurinn UMP, fær samkvæmt útgönguspánni 20,6% atkvæða en Sósíalistaflokkur François Hollande fær einungis 14,1%. Samkvæmt þessu fær Þjóðfylkingin 24 sæti á Evrópuþinginu, samanborið við 3 sæti í síðustu kosningum. UMP fær 19 sæti og Sósíalistar fá 13. 

„Fólkið í landinu hefur sagt með lýðræðislegum hætti að það vilji endurheimta stjórn á eigin örlögum,“ sagði Le Pen í höfuðstöðvum flokksins og hlaut mikið lófaklapp við undirspil þjóðsöngs Frakka, Marseillaise. „Fólkið krefst þess að ákvarðanir fyrir Frakka verði teknar af Frökkum,“ bætti Le Pen við. Þjóðfylkingin hefur það á stefnuskrá sinni að Frakkar gangi úr Evrópusambandinu. Niðurstöður kosninganna fela að hennar mati í sér að Frakkar hafni Evrópusambandinu.

Sigur Le Pen-fjölskyldunnar

Marina Le Pen var sjálf í framboði í noðvesturhluta Frakklands og þar hlaut Þjóðfylkingin um 32% atkvæða. Sambýlismaður hennar, Louis Aliot, var í framboði í Suðvestur-Frakklandi þar sem flokkurinn hlaut 23,7% og faðir Marinu, Jean-Marie Le Pen, var í framboði í suðausturhlutanum og þar fékk flokkurinn 28,9%. Jean-Marie, sem er jafnframt einn stofnenda Þjóðfylkingarinnar, hélt ekki aftur af orðum sínum þegar útgönguspáin birtist. „Það verður að leysa upp þjóðþingið,“ sagði hann og beindi þeim kröfum að forsætisráðherra landsins, Manuel Valls, að hann segði af sér.

Sjá frétt The Telegraph

Mynd/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert