Bretar gætu sagt skilið við ESB

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur varað við því að Bretar muni segja skilið við Evrópusambandið (ESB) ef Jean-Claude Juncker, fyrrverandi forsætisráðherra Lúxemborgar, verður kjörinn nýr forseti framkvæmdastjórnar ESB.

Þetta herma heimildir þýska vikuritsins Der Spiegel.

Heimildarmenn blaðsins segja að Cameron hafi bent á að ráðning Junckers geti aukið óstöðugleikann innan sinnar eigin ríkisstjórnar og leitt að lokum til þess að Bretlandi segi skilið við sambandið.

Þeir segja að Bretar muni aldrei geta sætt sig við að jafnmikill og eindreginn Evrópusinni og Juncker taki við embættinu. Ómögulegt verði fyrir ríkisstjórn Camerons að standa gegn kröfum andstæðinga Evrópusambandsins í Bretlandi um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð aðildar Bretlands að sambandinu.

„Kunnuglegt andlit frá níunda áratugnum getur ekki leyst úr vandamálum  Evrópusambandsins,“ á Cameron að hafa sagt.

Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að Juncker njóti mikilla vinsælda í Evrópu. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur lýst opinberlega yfir stuðningi við Juncker og vill að hann taki við embættinu af núverandi forseta, Portúgalanum José Manuel Barrosso.

Þá benda fréttaskýrendur á að flokkur Junckers hafi hlotið afar góða kosningu þegar kosið var til Evrópuþingsins seinustu helgi. Flokkurinn fékk 213 sæti af 751 og mældist sá stærsti í álfunni.

Cameron, ásamt fleiri Evrópuleiðtogum, hefur hins vegar sagt að það gæti verið óheppilegt að ráða Juncker til starfans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert