Hálf íslenska þjóðin þurrkuð út árlega

Eitt dauðsfall á þriðju hverri mínútu eða nítján á klukkustund. Þetta er staðreynd úr umferðinni á Indlandi. Eða eins og fréttavefurinn Two Circles setur töluna fram, að það sé eins og helmingur íslensku þjóðarinnar þurrkaðist út á indverskum vegum árlega.

Banaslys í umferðinni á Indlandi hafa komist aftur í umræðuna þar í landi eftir að ráðherrann Gopinath Munde lést í árekstri á dögunum, en hann hafði aðeins verið fáeina daga í embætti þegar slysið varð. Útför Munde fór fram í dag.

Talið er að árlega látist um 1,4 milljónir manna í umferðarslysum á heimsvísu. Jafnan er talað um að ellefu prósent þeirra látist í Indlandi. Tala banaslysa í Indlandi fer einnig hækkandi með árunum og létust 168.301 í umferðinni árið 2012. 

„Það er ekki aðeins að öryggi sé ábótavant í vegakerfinu sjálfu heldur bera bílaframleiðendur einnig ábyrgð. Þeir markaðssetja bíla sem standast fá árekstrapróf. Þannig hafa sjö hundruð þúsund manns látist í Maruti-800, vinsælustu indversku bifreiðinni, frá því bíllinn var settur á markað árið 1985,“ segir Kamajit Soi, alþjóðlegur sérfræðingur í umferðaröryggi.

Soi talar um fjöldamorð á indverskum vegum þar sem margir beri ábyrgð. „Hundruð manna látast á hverjum degi. Það er eins og ofurþota brotlenti dag hvern. Ég rétt vona að ríkisstjórn Nar­endra Modi [nýs for­sæt­is­ráðherra Ind­lands] setji umferðaröryggi á oddinn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert