Löng og erfið leið frá Afríku til Íslands

Grímuklæddir stuðningsmenn hinsegin fólks mótmæla í Kenýa, gegn hörðum lögum …
Grímuklæddir stuðningsmenn hinsegin fólks mótmæla í Kenýa, gegn hörðum lögum Úgandastjórnar gegn samkynhneigð. AFP

Samkynhneigðir Afríkumenn þurfa sumir að bíða í allt að tvö ár frá því þeir flýja landið sitt og þar til skorið er úr um hvort Sameinuðu þjóðirnar veiti þeim formlega stöðu flóttamanns. Ísland mun á næstunni taka við fimm slíkum flóttamönnum, frá Simbabve, Úganda og Kamerún.

Öll eiga þau sameiginlegt að hafa flúið heimaland sitt vegna ofsókna sem þau hafa sætt vegna kynhneigðar sinnar. Flóttamannanefnd fékk umsóknir fólksins í hendur frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).

Ekki er hægt að sækja um stöðu flóttamanns til UNHCR nema hafa yfirgefið heimaland sitt fyrst. Hinsegin fólk í Afríku sem það gerir á það margt sameiginlegt að hafa flúið ofsóknir í eigin landi, jafnvel handtökuskipanir, múgæsingu á götum úti auk ofbeldis af hálfu eigin fjölskyldu, án þess þó að hafa gert sér grein fyrir því hversu langt ferli væri framundan til þess að það gæti fengið að lifa í friði.

Þegar yfir landamæri er komið þurfa umsækjendur að fara í gegnum afar strangt ferli hjá UNHCR þar sem skorið er úr um hvort þeir uppfylli skilyrði til að teljast flóttamenn. Eins og staðan er í dag getur það ferli tekið allt að tvö ár, að því er fram kemur á vefnum Oblogdeeblogda, þar sem lögmaðurinn og aðgerðasinninn Melanie Nathan fjallar um jafnréttismál hinsegin fólks í Afríku og Bandaríkjunum.

Í flestum tilfellum hafa flóttamenn svo ekkert um það að segja hjá hvaða landi UNHCR sækir svo um hæli hjá fyrir þeirra hönd. Á meðan þeir bíða svars bíða flóttamennirnir oftar en ekki í flóttamannabúðum, þar sem fordómar og andúð gegn samkynhneigð er engu minni en í landinu sem þeir flúðu. Ólíkt flestum öðrum flóttamönnum þurfa þau því einnig að þola ofsóknir í sjálfum flóttamannabúðunum.

Samkvæmt Oblogdeeblogda bíða tugir hinsegin Úgandamanna nú í slíkum flóttamannabúðum í Kenýa, sumir með von um að fá hæli í öðrum löndum, en aðrir án þess að hafa fengið nokkur svör ennþá frá UNHCR.

Þar segir jafnframt að einhver tregða virðist vera í kerfinu í Bandaríkjunum varðandi það að taka á móti hinsegin flóttafólki frá Afríku. Tugir stofnana séu þar reiðubúnir að taka við slíku flóttafólki, en einhverra hluta vegna komist það ekki í gegn. Tveir samkynhneigðir menn frá Kongó hafi fengið hæli í Kaliforníu í júní, en Bandaríkin eigi að hafa getu til að taka við fleirum.

Til samanburðar segir á síðunni að íslensk stjórnvöld virðist hafa brugðist fljótt og vel við. Tillaga flóttamannanefndar um móttöku fólksins byggist á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 10. september 2013 þar sem ákveðið var að taka annars vegar á móti hinsegin fólki og hins vegar konum í hættu frá Afganistan, alls 10-14 einstaklingum.

UNHCR hefur verið tilkynnt að Íslendingar séu nú tilbúnir að taka á móti þeim.

Sjá einnig: Tekið við hinsegin flóttamönnum

Hinsegin fólk í Afríku má víða þola ofsóknir og ofbeldi …
Hinsegin fólk í Afríku má víða þola ofsóknir og ofbeldi en það er langt og strangt ferli að fá stöðu flóttamanns. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert