Síðustu efnavopnin farin

Sigrid Kaag hjá alþjóða efnavopnastofnuninni í Haag, OPCW, fagnaði áfanganum …
Sigrid Kaag hjá alþjóða efnavopnastofnuninni í Haag, OPCW, fagnaði áfanganum í dag. AFP

Eftir margra mánaða tafir voru síðustu efnavopnin flutt burt frá Sýrlandi í dag, samkvæmt samkomulagi sem gert var með millögungu Sameinuðu þjóðanna í fyrra. Danir flytja vopnin til Ítalíu, þaðan sem þau eru svo færð til Bandaríkjanna þar sem þeim verður eytt á hafi úti.

Bandaríkin höfðu hótað loftárásum á Sýrland, gegn harðri gagnrýni Rússa, en samið var um að láta ekki verða af því gegn því að efnavopnunum yrði eytt.

Alþjóðlega efnavopnastofnunin í Haag, OPCW hefur haft yfirumsjón með eyðingu efnavopnanna og sagði forstöðumaður hennar í Hollandi í dag, Sigrid Kaag, að verkefnið hefði verið mikil áskorun.

Fram til þessa höfðu 92% allra efnavopna verið flutt  burt en sýrlensk stjórnvöld drógu það að flytja síðasta farminn, að eigin sögn af öryggisástæðum vegna ástandsins í borginni Latakia, þar sem þau voru geymd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert