100 handtökur í kjölfar eftirlits NSA

AFP

Rafrænt eftirlit Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) leiddi til þess að yfir 100 handtökur voru framkvæmdar og komið var í veg fyrir að ráðabrugg hryðjuverkamanna næðu fram að ganga. Þetta segir nefnd sem hefur eftirlit með því hvort brotið sé gegn borgaralegum réttindum.

Niðurstaðan kemur fram í skýrslu sem nefndin, Privacy and Civil Liberties Oversight Board (PCLOB), hefur skilað af sér, en hún er 196 blaðsíður.

Þar koma fram nýjar upplýsingar varðandi þær fullyrðingar NSA um að eftirlitið, sem hefur verið gagnrýnt og þótt afar umdeilt, hafi komið í veg fyrir árásir hryðjuverkamanna á Bandaríkin og bandamenn þeirra.

Í skýrslunni er að mestu lögð blessun yfir eftirlitið sem fær heimild samkvæmt lögum sem kallast ákvæði 702.

„Lausleg talning á þessum málum staðfesta yfir 100 handtökur sem tengjast brotum sem varða hryðjuverkastarfsemi,“ segir í skýrslunni.

„Í öðrum málum sem leiddu ekki til þess að samsæri voru stöðvuð eða samsærismenn handteknir, þá virðist sem að ákvæði 702 hafi verið nýtt til að koma á framfæri viðvörunum um áframhaldandi ógn eða til að aðstoða við rannsókn mála sem standa enn yfir,“ segir einnig.

Í skýrslunni segir að um 15 mál tengist Bandaríkjunum á einn eða annan hátt og um 40 mál tengist aðilum og samsærum í erlendum ríkjum. 

PCLOB segir ennfremur að fullyrðingar NSA séu í stórum dráttum í takti við niðurstöðu nefndarinnar.

Fyrr á þessu ári gagnrýndi nefndin tilraunir til eftirlits í Bandaríkjunum harðlega en skýrslan, sem kemur úr smiðju sömu nefndar, er þvert á fyrri niðurstöðu. 

Aðgerðarsinnar sem berjast fyrir því að friðhelgi einkalífs og borgaralega réttindi séu virt, halda því fram að nefndin hafi sleppt því að skoða heildaráhrif víðtæks eftirlits NSA í ljósi þeirra upplýsinga sem bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden, sem starfaði fyrir NSA, hefur birt um starfsemina.

PCLOB kynnti sér verkefni sem kallast PRISM, en það safnar m.a. gögnum frá stærstu netfyrirtækjum heims. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert