Beitti soninn ofbeldi dögum saman

Mikaeel Kular.
Mikaeel Kular. AFP

Móðir Mikaeels Kulars, sem fannst látinn eftir umfangsmikla leit í Edinborg í vetur, beitti hann stöðugu ofbeldi dögum saman. Lík Kulars fannst vafið inn í sæng og ofan í tösku. Hann var þriggja ára.

Móðir Kulars heitir Rosdeep Adekoya og er 34. Hún var ákærð fyrir að myrða son sinn og eru réttarhöldin nú hafin. Saksóknari heldur því fram að hún hafi myrt drenginn með því að kýla hann svo fast að hann lenti á hörðum hlut, fékk höfuðhögg og lést. Talið er að hún hafi beitt drenginn miklu ofbeldi dagana 12.-15. janúar, allt þar til hann lést. Er hann var látinn faldi hún lík hans í skóglendi nokkrum kílómetrum frá heimili þeirra í Edinborg.

Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar um málið segir að hún sé einnig ákærð fyrir að villa um fyrir lögreglunni. Hún hringdi á neyðarlínuna og sagði að sonur sinn hefði klifrað upp á stól, opnað útidyrahurðina og farið út.

Umfangsmikil leit var gerð að drengnum. Fleiri hundruð manns tóku þátt í leitinni, þeirra á meðal margir sjálfboðaliðar.

Í gær var ákæran lesin í réttarsalnum en réttarhöldunum hefur nú verið frestað til 25. júlí.

Frétt mbl.is: Kular borinn til grafar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert