Sorg í hjarta Brasilíumanna

Sorg miklu frekar en reiði virðist einkenna brasilísku þjóðarsálina að loknum leik Brasilíu og Þýskalands í gærkvöldi. Búist var við óeirðum þegar ljóst var í hvað stefndi en þeim sem vonuðust eftir slíku varð vart að ósk sinni.

Mikill viðbúnaður var hjá lögreglu í Rio de Janeiro og víðar í landinu. Eitthvað var um að brotist væri inn í verslanir og slagsmál á götum úti, sérstaklega á Copacabana-ströndinni, kannski eitthvað sem Íslendingar kannast við um nánast hverja helgi.

Fjölmargir barir tæmdust í hálfleik enda Brasilíumenn búnir að sjá nóg - 5-0 - og fannst óþarfi að strá frekara salti í sárin. 

„Söguleg skömm“ var fyrirsögnin á vef Folha de S.Paulo-miðilsins. „Fjöldamorð Þjóðverja. Mesta skömm Brasilíu í sögu HM, í sögu brasilískrar knattspyrnu,“ skrifar Bob Fernandes, dálkahöfundur og dagskrárgerðarmaður á Terra Web-vefinn.

Fólk sem fjölmiðlar ræddu við eftir leikinn segir að stuðningsmenn Brasilíu hafi einfaldlega gefist upp í hálfleik, fimm mörk á 30 mínútum sé einfaldlega of mikið. Fjölmargir ákváðu hreinlega að fara heim á þeim tímapunkti og neðanjarðarlestarvagnar voru troðfullir, ekki af æpandi fótboltabullum heldur fólki sem sat í þögn. 

Einn þeirra sem eru miður sín eftir leikinn er norski rithöfundurinn Jon Michelet sem er mikill aðdáandi brasilíska landsliðsins. „Þetta var knattspyrnuleikur frá helvíti. Þetta er það versta sem ég hef séð í fótboltaleik. Ég hef aldrei upplifað neitt jafn hræðilegt. Um tíma var þetta eiginlega óraunverulegt,“ segir hann í viðtali við Aftenposten.

Michelet efast ekki um að brasilíska þjóðin þjáist vegna leiksins. Niðurstaða hans sé eiginlega óbærileg. „Einhverjir hafa talað um óeirðir og skemmdarverk og mikið rætt um hvort það hafi átt að eyða svo miklu fé í HM. En ég held að Brasilíumenn fari nú hver í sína holu og syrgi.“

Rithöfundurinn tekur dæmi úr knattspyrnusögunni sem hafa komið illa við fólk í Noregi. Til að mynda þegar Svíar unnu Norðmenn 9-0 í Póllandi en hann segir að norska þjóðin hafi aldrei þurft að upplifa slíkan ósigur og Brasilíumenn nú á heimavelli. Þetta væri svona eins og ef Danir myndu rassskella Norðmenn í knattspyrnuleik í Noregi.

Guardian

Washington Post

Telegraph

BBC

Berlingske

Aftenposten

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert