Dani sakaður um barnaníð

AFP

Rúmlega tvítugur Dani sem sakaður var um barnaníð í leikskóla sem hann starfaði á í New York hefur verið látinn laus.  Leikskólakennarinn hafði setið í gæsluvarðhaldi sakaður um að barnaníð gagnvart þrettán börnum frá því í lok júní.

Samkvæmt frétt Berlingske var maðurinn, sem er 22 ára, látinn laus í gærkvöldi að sögn lögmanns hans, Jane Fisher-Byrialsen. 

Svo virðist sem mörg mistök hafi verið gert við mál unga mannsins og hann hafður fyrir rangri sök ef marka má rannsókn á brotum hans segir í New York Daily. Það var fyrrverandi samstarfsmaður hans sem kærði hann fyrir barnaníð. Átti hann að hafa neytt börnin til þess að strjúka kynfæri sín. Skólayfirvöld eiga að hafa fylgst með danska starfskraftinum og hefur ekkert fundist sem bendir til þess að hann hafi brotið gegn börnunum. Málið er enn í rannsókn lögreglu en Daninn hefur verið látinn laus gegn tryggingu. Jafnframt er honum gert að bera ökklaband.

Lögfræðingur hans segir reynt verði að fá nafn Danans hreinsað af ásökunum en honum var haldið í einangrun í fangelsinu á Rikers eyju að eigin ósk vegna ótta við árásir af hálfu annarra fanga þar. 

Daninn var í starfsþjálfun á leikskólanum í New York og hafði starfað þar í nokkra mánuði.

Talsverður misskilningur virðist hafa átt sér stað varðandi mál Danans og þegar átti að láta hann lausan í gær gegn tryggingu þá var hann settur inn á nýjan leik. Foreldrar hans greiddu fyrir hann trygginguna, 400 þúsund Bandaríkjadali.

Samkvæmt frétt New York Daily beið móðir Malthe Thomsens ásamt lögmanni hans í réttarsalnum í nokkra klukkutíma í gær þar sem láta átti hann lausan. Það var svo um fjögurleytið sem starfsmaður réttarins tilkynnti þeim að Thomsen hefði fyrir mistök verið sendur til baka í fangelsið á Rikers eyju. 

Í dómsskjölum kemur fram að Thomen á að hafa látið börnin snerta kynfæri sín utanklæða. Samkvæmt innri rannsókn leikskólans er ekkert sem staðfestir þessar ásakanir sem fyrrverandi starfsmaður skólans lagði fram. Sá starfsmaður hefur nú verið rekinn úr starfi. 

Thomson hefur neitað sök og foreldrar hans segja að sonur þeirra sé saklaus.

 Frétt Daily Mail 

 Frétt DR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert