Ódýrt og hreint efni knýr heróínfaraldur

Bandaríkjamenn tala um faraldur og nokkur ríki um að neyðarástand ríki. Ekki er það ebóla né fuglaflensa heldur heróín sem stráfellir íbúa landsins. Á tíu árum hefur notkun heróíns meira en tvöfaldast og sífellt fleiri látast af völdum sprautunnar. Bandaríkjamenn spyrja sig hvað hafi eiginlega gerst.

Meðal þess sem hefur verið nefnt er að átak var gert í ávísun lyfja til sjúklinga. Sökum þess hefur notkun sterkra verkjalyfja sem læknar ávísa minnkað og þar af leiðandi dauðsföll af völdum þeirra. Það hins vegar hefur orðið til þess að fíklar leita út á ólöglega markaðinn og hefur heróín orðið fyrir valinu sem það mest notaða.

Aðrir segja það töluverða einföldun. Málið sé hreinlega það að framboð af heróíni sé gríðarlegt í Bandaríkjunum, verðið hafi lækkað og efnið sé hreinna en áður. Gott aðgengi að ódýru og hreinu heróíni leiði af sér fleiri neytendur, fleiri fíkla og hreinlega knýi þennan faraldur.

Í myndskeiðinu hér að ofan er meðal annars rætt við Dustin, 24 ára Bandaríkjamann sem hefur margsinnis leitað sér aðstoðar við heróínfíkn sinni. Hann var 18 ára þegar hann hóf að sprauta sig og var fljótlega orðinn svo háður efninu að hann þurfti að sprauta sig áður en hann burstaði á morgnana.

„Aldrei leið mér betur en þegar mér áskotnuðust peningar og fíkniefni. Þá gat ég sprautað og kvatt allar heimsins áhyggjur. Ekkert annað skipti máli. Ég gat setið einn með sjálfum mér allan daginn og ekki haft áhyggjur af neinu fyrr en daginn eftir. Þá þurfti ég að endurtaka leikinn,“ segir Dustin sem óskar sér þess heitast að losna við fíknina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert