Mannrán og pyntingar í Úkraínu

Amnesty International gáfu í dag út skýrslu um ástandið í Úkraínu þar sem fram kemur að hundruð manna hafi verið rænt og pyntaðir af aðskilnaðarsinnum, hliðhollum sameiningu við Rússland. Samtökin gagnrýna einnig óhóflega valdbeitingu af hálfu stjórnarhersins.

„Þeir börðu mig með hnefunum, með stól, með hverju sem hönd á festi. Þeir drápu í sígarettum á fótleggnum á mér og gáfu mér raflost. Þetta gekk á svo lengi að ég fann ekki fyrir neinu lengur, það leið bara yfir mig,“ er haft eftir 19 ára gömlum pilti, Sascha, í skýrslunni. Honum var rætt í borginni Lugans í austurhluta Úkraínu.

Sascha var meðlimur í „sjálfsvarnarsveitum“ fólks hliðhollum úkraínskum stjórnvöldum, en aðskilnaðarsinnar hafa yfirhöndina í austurhluta landsins. Honum var ekki sleppt lausum fyrr en faðir hans hafði greitt 45.000 evru sekt. Eftir það flúði hann til höfuðborgarinnar.

Skýrsla Amnesty dregur upp dökka mynd af stöðu mála í Austur-Úkraínu, þar sem mannrán, pyntingar og kúganir virðast nú daglegt brauð á svæðum þar sem vopnaðar sveitir manna hliðhollum Rússlandi tóku yfir nokkrar lykilborgir fyrr á þessu ári og há baráttu við stjórnarher Úkraínu.

Amnesty segir að öngþveitið sé slíkt að ekki sé hægt að fá áreiðanlegar og staðfestar tölur um fjölda þeirra sem beittir hafa verið ofbeldi, enda geri stjórnvöld enga tilraun til þess að halda skrá yfir ofbeldisverkin.

Eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna með mannréttindabrotum í Úkraínu hefur hinsvegar skráð 222 mannránsmál. Innanríkisráðuneyti Úkraínu segir 387 hafa verið rænt á tímabilinu frá apríl fram í júní, þar af 39 blaðamenn.

Þá segir Amnesty að úkraínski herinn hafi beitt óhóflegu valdi við að reyna að ná aftur stjórninni í austurhluta landsins, m.a. í apríl þegar 5 vopnaðir menn við vegatálma við bæinn Slavyans voru skotnir til bana. Þá létu tveir almennir borgarar lífið þegar herinn skaut á mannþröng í bænum Krasnoarmeisk í maí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert