Martröð Brasilíumanna heldur áfram

Það var sárt fyrir Brasilíumenn að tapa stórt fyrir Þjóðverjum og Hollendingum á HM. Ennþá sárara er þó að sjá erkifjendur þeirra frá Argentínu komast í úrslitin. Mikill meirihluti Brasilíumanna virðist því halda með Þýskalandi í kvöld, þrátt fyrir að hafa þurft að þola 7-1 niðurlægingu frá þeim.

Brasilía og Argentína eru tveir risar í fótboltaheimi Suður-Ameríku og hafa áratugum saman bitist á um boltann og m.a. rifist endalaust um hvor knattspyrnugoðsögnin sé betri, hinn argentínski Diego Maradonna eða hinn brasilíski Pelé. Sjálfur lýsti Pelé því yfir við fjölmiðla í dag að hann veðji á Þýskaland í kvöld, sem þarf varla að koma á óvart.

Brasilíumenn hafa yfirhöndina því þeir hafa 5 sinnum orðið heimsmeistarar, en Argentína tvisvar. Það gæti þó jafnast aðeins í kvöld, hampi Argentína bikarnum í þriðja sinn.

„Við erum öll Þýskaland“

„Það er sárt að sjá Argentínu keppa til úslita á okkar heimavelli, sérstaklega eftir okkar versta tap allra tíma,“ sagði bréfberinn Marcio Carneiro da Silva þegar blaðamaður Afp gaf sig á tal við hann þar sem hann drekkti sorgum sínum í bjór á veitingastað í Río de Janeiro.

Finur hans Cear Augusto fór ekki í grafgötur með hverja hann styður í kvöld. „Núna er ég Þjóðverji,“ lýsti hann yfir. Það fylgir líka sögunni að úrslitaleikurinn fer fram á sama leikvangi og Brasilíumenn upplifðu síðast stóráfall í fótboltasögunni, þegar þeir töpuðu fyrir Úrúgvæ þar árið 1950.

Brasilíski vefmiðillinn O Dia fjallar um úrslitaleikinn í kvöld undir fyrirsögninni „Martröðin heldur áfram“ þar sem segir að Brasilíumenn hugsi nú með hryllingi til þess að svo gæti farið í kvöld að helsti keppinauturinn, Argentína, verði sigursæll á goðsagnakenndasta fótboltavelli Brasilíu.

Íþróttadagblaðið Lance kom af stað myllumerkinu #SomosTodosAlemanha á Twitter, eða „Við erum öll Þýskaland“ en Argentínumenn brugðust við í netheimum með því að tísta ítrekað tölunni 7 til að minna Brasilíumenn á 7 marka niðurlæginguna.

Argentínskir stuðningsmenn eru áberandi víða um Brasilíu núna, í sínum heiðbláu búningum, syngjandi argentínska baráttusöngva á börum og götum úti. Talið er að um 70.000 Argentínumenn hafi gert sér ferð til Brasilíu vegna heimsmeistaramótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert