Konur mega loksins verða biskupar

Enska þjóðkirkjan samþykkti í dag með atkvæðagreiðslu að heimila konum að verða biskupar. Þar með er endi bundinn á hálfrar aldar deilur um hlutverk kvenna innan kirkjunnar. Með samþykktinni er snúið við niðurstöðu kirkjuþings árið 2012, sem var mörgum mikil vonbrigði, en þá var tillögu um kvenbiskupa hafnað naumlega.

Enska þjóðkirkjan lýtur drottningunni og henni tilheyra um 85 milljónir manna í breska samveldinu. Rétt rúm 20 ár eru liðin síðan samþykkt var að konur mættu gerast prestar í ensku þjóðkirkjunni og eru fjölmargir kvenprestar starfandi í dag.

Erkibiskupinn af Kantaraborg, Justin Welby, er talinn eiga mikinn heiður af því að tillagan var endanlega samþykkt á prestastefnu í York í dag, en hann hefur beitt sér mjög fyrir málstaðnum.

Kosið var í þremur umferðum og er niðurstaðan sú að í biskupadeildinni greiddu 37 atkvæði með en 2 gegn tillögunni og einn sat hjá. Meðal presta féllu atkvæði þannig að 162 kusu með en 25 gegn og 4 sátu hjá. Af leikmönnum með atkvæðarétt greiddu 152 atkvæði með en 45 gegn og 5 sátu hjá.

Má búast við því að fyrsti kvenbiskup ensku þjóðkirkjunnar verði skipaður fyrir árslok. 

Sjá einnig: Deilt um kvenbiskupa í ensku þjóðkirkjunni

Djöfullinn brottrækur úr skírnarathöfnum

Þetta eru ekki einu tíðindin sem berast af kirkjuþingi um breytingar innan ensku þjóðkirkjunnar. Í gær var nefnilega samþykkt ný útgáfa af skírnarathöfninni þar í landi, sem felst í því að héðan af verður ekkert minnst á djöfulinn þegar börn eru skírð til guðstrúar og þeim gefið nafn um leið.

Breytingin er gerð til þess að athöfnin verði aðgengilegri, því prestar segja skírnarathafnir gjarnan gerðar með fjölskyldum sem hafi litla reynslu af kirkjunni og þeim þyki hin hefðbundna skírn helst til flókin.

Til þessa hefur tíðkast að foreldrar eru spurðir hvort þeir „hafni djöflinum og hvers kyns uppreisn gegn guði,“ og sömuleiðis hvort þeir „hafni svikum og spillingu hins illa“ og hvort þeir iðrist synda sinna. Þessu þurfa þeir að svara áður en barnið er ausið vatni og þar með innlimað í kirkjuna með táknrænum hætti.

Í nýju útgáfunni, sem nú verður í boði sem valmöguleiki, eru foreldrar einfaldlega beðnir um að svara því hvort þeir hafni allri synd og hinu illa. Þessi breytingartillaga fékk yfirburðakosningu á þinginu í gær.

Kvenprestar mæta til kirkjuþings í Jórvík, þar sem í dag …
Kvenprestar mæta til kirkjuþings í Jórvík, þar sem í dag loks var samþykkt að heimila konum að verða biskupar. AFP
Rose Hudson-Wilkin er ein margra kvenpresta í ensku þjóðkirkjunni sem …
Rose Hudson-Wilkin er ein margra kvenpresta í ensku þjóðkirkjunni sem nú eiga í fyrsta sinn möguleika á því að verða biskupar. AFP
Rosemary Lain-Priestley er ein margra kvenpresta í ensku þjóðkirkjunni sem …
Rosemary Lain-Priestley er ein margra kvenpresta í ensku þjóðkirkjunni sem nú eiga í fyrsta sinn möguleika á því að verða biskupar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert