Martröðinni lýkur aldrei

Zuneru dreymdi um að læra tölvunarverkfræði en sá draumur varð ekki að veruleika heldur endaði hún í vændi í Sameinuðu furstadæmunum þegar hún var sextán ára. Við tók fjögurra ára martröð sem einkenndist af grimmd, ofbeldi og nauðgunum.

Í mörg ár hefur Pakistan verið ein helsta uppistaðan í innflutningi á ódýru vinnuafli til furstadæmanna og þá ekki síst í byggingargeiranum. En það eru ekki bara verkamenn sem eru fluttir frá Pakistan til Dúbaí því fleiri hundruð pakistanskar stúlkur eru fluttar mansali á hverju ári til þess að anna ört vaxandi eftirspurn í kynlífsiðnaði furstadæmisins. Zunera og Shaista systir hennar eru meðal þeirra sem eru fórnarlömb mansals.

Meira en ár er síðan Zunera slapp úr ánauðinni en sársaukinn er enn til staðar, ekki bara líkamlegur heldur líka andlegur. Hún er þakin örum á líkamanum eftir hrottalega meðferð, meðal annars skotsár.

Zunera og Shaista náðu að flýja kvalara sína árið 2013 en eru enn á flótta. Þær búa í felum í fátækrahverfi þar sem þær óttast hefndaraðgerðir glæpahópsins sem rændi þeim. 

Nágrannakona sem kom til bjargar

Saga þeirra hefst í heimabæ þeirra í Punjab-héraði þar sem fjölskylda þeirra lenti í peningavandræðum og nágranni fjölskyldunnar, Ayesha, bauð þeim vinnu. Eftir einhvern tíma lagði Ayesha til að þær systur færu til Dúbaí að vinna á snyrtistofu sem hún ætti þar. Hún útvegaði þeim fölsuð persónuskilríki þar sem Zunera var undir lögaldri þegar hún yfirgaf Pakistan.

Minningarnar bera Shaistu ofurliði í viðtalinu og hún berst við grátinn þegar hún lýsir því fyrir fréttamanni AFP hvað beið þeirra við komuna til Dúbaí.

„Ayesha fór með okkur inn á salerni á flugvellinum og sagði okkur að við ættum að þjóna viðskiptavinum hennar til rekkju,“ segir Zunera.

„Við byrjuðum að gráta og þá sagði hún okkur að við hefðum ferðast á fölsuðum skjölum og ef við segðum eitthvað tæki lögreglan okkur.“

Þær systur fylgdu því Ayeshu sannfærðar um að þær gætu neitað að þjóna viðskiptavinum hennar kynferðislega.

Fylgdist með og aðstoðaði kvalara þeirra

„Í fyrsta skiptið var hún sjálf viðstödd í herberginu og skipaði okkur að gera það sem viðskiptavinirnir vildu. Okkur var nauðgað fyrir framan hana og með hennar aðstoð,“ segir Zunera. 

Eftir það sagði Ayesha viðskiptavinum sínum að tengja síma sína við hennar svo hún gæti fylgst með því að stúlkurnar færu að vilja þeirra.

„Hún var vön að pynta okkur í hvert skipti sem við neituðum einhverju á kynlífssviðinu og hún sagði okkur að hún vissi nákvæmlega hvað væri í gangi í herberginu,“ segir Zunera.

Systurnar fengu ekki að fara út og gátu aldrei um frjálst höfuð strokið. Þær fengu að tala við fjölskyldu sína í Pakistan af og til í síma undir ströngu eftirliti.

„Hún var vön því að berja aðra okkar og láta hina tala í símann við foreldra okkar. Hún hótaði okkur lífláti ef við segðum frá vændisrekstrinum,“ segir Zunera.

Ayesha fór reglulega með þær til Pakistans til þess að endurnýja vegabréfsáritun þeirra. Hún hótaði því að ef þær segðu frá myndi hún drepa alla fjölskylduna.

En í mars 2013 tókst Zuneru að safna kjarki og segja eldri systur sinni, Qamar, frá því sem þær bjuggu við. 

„Bróðir Ayeshu og yngri bróðir eiginmanns hennar komu heim til okkar. Þeir skutu þremur skotum sem hæfðu mig,“ segir Zunera og bætir við að Ayesha hafi sent á sjúkrahúsið lögreglumann sem áreitti hana. Hann hafi látið hana ganga þrátt fyrir að vera nýkomin úr aðgerð á fæti.

Fjölskyldan flúði af sjúkrahúsinu og er í felum. Fjölskylda Zuneru fór með málið fyrir dómstóla og var hafin rannsókn á vændisrekstri Ayeshu og eiginmanns hennar Asfaq. Sú rannsókn hefur skilað litlum sem engum árangri. 

Lögfræðingurinn Zulfiqar Ali Bhutta, sem er með mál Zuneru, segir að mansalshringir séu oft með mikil áhrif meðal stjórnmálamanna og lögreglu.

„Nokkrir glæpahringir smygla tugum ungra stúlkna frá Pakistans til Dúbaí og selja í vændi í hverri viku. Enginn berst gegn þessu,“ segir Bhutta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert