Hafa orðið tugum barna að bana

Palestínumenn leita skjóls á heimilum sínum í Gazaborg undan loftárásum …
Palestínumenn leita skjóls á heimilum sínum í Gazaborg undan loftárásum Ísraelshers. AFP

Um 80% þeirra sem hafa beðið bana í loftárásum Ísraelshers á Gaza-svæðið voru óbreyttir borgarar og rúm 20% voru börn, að sögn OCHA, Samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum. Frá því að árásirnar hófust hafa þær að meðaltali kostað sex börn lífið á dag.

Að því er fram kemur í skýrslu OCHA létu að minnsta kosti 168 manns lífið á sex dögum, frá 7. júlí og fram á sunnudag. Þar af voru a.m.k. 133 óbreyttir borgarar og minnst 26 liðsmenn vopnaðra hreyfinga Palestínumanna en ekki var vitað hvort níu aðrir sem féllu voru úr röðum þeirra síðarnefndu. 36 fórnarlambanna voru börn og 26 konur.

Að sögn palestínskra heilbrigðisyfirvalda höfðu 1.140 Palestínumenn særst í loftárásunum, þeirra á meðal 296 börn og 233 konur.

Hættan mest er þau leita í rústunum

Um 940 íbúðir á Gaza-svæðinu höfðu verið lagðar í rúst í árásunum og áætlað er að um 5.600 Palestínumenn hafi misst heimili sín, að því er fram kemur í skýrslunni. Auk þeirra hafa um 16.000 manns flúið heimili sín og leitað athvarfs í tuttugu skólum á norðanverðu Gaza-svæðinu.

Í mannskæðustu árásinni biðu átján manns bana, þar af sex börn og þrjár konur, þegar Ísraelsher réðst á hús í Gaza-borg. Sextán aðrir særðust, þeirra á meðal lögreglustjóri borgarinnar, sem var í heimsókn hjá ættingjum sínum í húsinu þegar árásin var gerð. Talið er að loftárásin hafi beinst að honum.

Talið er að um 25.300 börn þurfi á áfallahjálp að halda vegna lofthernaðarins, þeirra á meðal börn sem hafa særst eða misst foreldra, systkin og heimili sín. Börnum stafar einnig mikil hætta af sprengjum sem varpað var á íbúðahverfi en sprungu ekki. Hættan er mest þegar börnin og aðrir íbúar Gaza leita að eigum sínum í húsarústunum. Um 100 ósprungnar sprengjur hafa fundist á Gaza-svæðinu.

Ísraelsher hóf lofthernaðinn vegna flugskeytaárása Hamas-samtakanna og fleiri palestínskra hreyfinga á byggðir í Ísrael. Alls hefur um 1.500 flugskeytum verið skotið á landið, að sögn fjölmiðla í Ísrael. Enginn Ísraeli hefur beðið bana en leiðtogar Hamas segja að allir Ísraelar séu réttmæt skotmörk í flugskeytaárásunum.

Ísraelsher hélt loftárásunum áfram í gær og minnst þrettán Palestínumenn biðu bana í fyrrinótt. Utanríkisráðherrar aðildarríkja Arababandalagsins komu saman í Kaíró í gær og hvöttu þjóðir heims til að stöðva árásir Ísraelshers og vernda íbúa Gaza-svæðisins.

Nils Butenschøn, norskur sérfræðingur í málefnum Palestínumanna, segir að fylgi Hamas hafi minnkað á Gaza-svæðinu á síðustu árum en lofthernaður Ísraela sé til þess fallinn að auka stuðning samtakanna meðal Palestínumanna. 

Tilgangslaust blóðbað

„Eftir að hafa fylgst með átökunum í mörg ár get ég ekki séð að Ísraelar auki öryggi sitt með því að ráðast á Gaza-svæðið og viðhalda herkvínni,“ hefur fréttavefur norska ríkisútvarpsins eftir Butenschøn.

Jeremy Bowen, fréttaskýrandi breska ríkisútvarpsins, telur ekkert benda til þess að samkomulag náist um vopnahlé á næstunni.

Peter Beaumont, fréttaritari The Guardian í Jerúsalem, segir að hernaðurinn sé tilgangslaus og hvorki Ísraelar né Hamas-menn geti farið með sigur af hólmi. „Ísraelar geta ekki sigrað, ekki frekar en að Hamas geti tapað,“ segir Beaumont í grein í blaðinu. „Verri er sú staðreynd að margir embættismenn í Ísrael vita að ósigur Hamas, á þeim forsendum sem reglulega er hamrað á við ísraelskan almenning, þjónar ekki hagsmunum landsins, þar sem hann myndi gera öðrum róttækari hreyfingum kleift að koma fram og ná völdunum.“

Beaumont telur að blóðbaðið sé til einskis og nýr vopnahléssamningur breyti litlu; verði aðeins til þess að árásunum linni um stundarsakir en haldi síðan áfram. „Pólitískt tryggir hernaðurinn ef til vill að sóttheit hægristjórn Netanyahus [forsætisráðherra Ísraels] endist í ár eða lengur undir forystu hans.“

Palestínsk stúlka lítur upp á ísraelskan dróna fljúga yfir heimili …
Palestínsk stúlka lítur upp á ísraelskan dróna fljúga yfir heimili hennar í Gazaborg. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert