„Hefur engan áhuga á friði“

John Baird, utanríkisráðherra Kanada.
John Baird, utanríkisráðherra Kanada. AFP

„Þegar ísraelsk stjórnvöld höfðu samþykkt vopnahléið sem hefði stöðvað átta daga átök hafnaði Hamas því án þess að hugsa sig um. Það sýnir að Hamas hefur engan áhuga á friði.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem John Baird, utanríkisráðherra Kanada, sendi frá sér í dag vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafsins á milli Ísraels og Hamas-samtakanna. Vísaði hann þar til tillögu að vopnahléi sem stjórnvöld í Egyptalandi lögðu fram.

Baird sagði kanadísk stjórnvöld lengi hafa verið þeirrar skoðunar að saklausir íbúar Gaza-strandarinnar ættu betra skilið en ábyrgðarlausa framgöngu Hamas en samtökin fara með stjórn svæðisins. Áréttaði hann að Kanada liti á Hamas sem alþjóðleg hryðjuverkasamtök sem hefðu eyðingu Ísraelsríkis að markmiði. Þá sagði hann að allt friðelskandi fólk í heiminum yrði að hafna hryðjuverkum eins og árásunum sem gerðar hefðu verið á Ísrael undanfarna daga.

„Við teljum að Ísrael hafi rétt á því að verja sig sjálft gegn áframhaldandi hryðjuverkaárásum af hálfu Hamas. Við erum þakklát Egyptalandi fyrir tilraunir þess til þess að koma á vopnahléi.“

Frétt mbl.is: Ekkert varð úr vopnahléi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert