Áhyggjur vegna hefts aðgengis

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, átti í dag samtal við rússneskan kollega sinn, Sergei Lavrov, vegna frétta af því að eftirlitssveit ÖSE hefði verið meinaður aðgangur að flaki MH17, farþegaþotu Malaysian Airlines, sem hrapaði til jarðar í Úkraínu. Sagðist Kerry hafa af því miklar áhyggjur.

Leiðtogar ýmissa ríkja, þar á meðal Barack Obama Bandaríkjaforseti, hafa lýst hneykslun sinni á framferði Rússa og krafist þess að þeir muni veita eftirlitssveitinni fullan aðgang að flakinu. „Bandaríkin hafa miklar áhyggjur af fregnum þess efnis að átt hafi verið við brak úr vélinni og fórnarlömb þessa hræðilega harmleiks,“ segir í tilkynningu frá innanríkisráðuneyti Bandaríkjanna.

Michael Bociurkiw, talsmaður ÖSE, hefur greint frá því að annan daginn í röð hafi eftirlitssveit ÖSE ekki getað sinnt vinnu sinni á vettvangi eins og hún hafi viljað. ÖSE var á svæðinu til að reyna tryggja að ekki væri átt við flakið eða brak úr farþegaþot­unni. Sautján meðlim­ir sveit­ar­inn­ar voru á vett­vangi hraps­ins í um 75 mín­út­ur en þá var þeim skipað að yf­ir­gefa svæðið.

Þá fór Kerry fram á það við Lavrov að Rússar beini því til aðskilnaðarsinna í Úkraínu að þeir leggi niður vopn til að slá á þá spennu sem er í austurhluta landsins í kjölfar þess að farþegaþotan var skotin niður. Með þotunni fórust nærri þrjú hundruð manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert