Útrunnið kjöt selt á McDonald's

Kjötið er meðal annars notað í McDonald's-hamborgara.
Kjötið er meðal annars notað í McDonald's-hamborgara. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Matvælaverksmiðju sem meðal annars framleiðir kjöt fyrir McDonald's og KFC hefur verið lokað vegna gruns um sölu á útrunnum vörum.

Yfirvöld í Sjanhæ í Kína lokuðu verksmiðjunni sem er í eigu bandaríska fyrirtækisins OSI Group sem framleiðir matvæli fyrir fjölmargar þekktar veitingahúsakeðjur, s.s. McDonald's, KFC, Burger King og Starbucks. Vörurnar sem sagðar eru innihalda útrunna kjötið hafa verið haldlagðar. Að sögn lögreglu mega eigendurnir búast við þungri refsingu.

Sjónvarpsstöð í Sjanghæ, sem skýrði upprunalega frá hneykslinu, sagði starfsmenn í verksmiðjunni hafa blandað saman fersku kjöti við útrunnið og vísvitandi hafa blekkt eftirlitsmenn frá McDonald's. Í upptöku frá verksmiðjunni mátti sjá starfsmenn taka kjötið upp af gólfinu áður en það var látið aftur í vinnsluvélina. Þá heyrðist einn starfsmaður segja að vond lykt væri af kjötinu.

McDonald's sendi frá sér yfirlýsingu sem sagði að kjötið hefði umsvifalaust verið tekið úr notkun. Félagið Yum, sem meðal annars rekur KFC og Pizza Hut sagði þá einnig að kjötið hefði verið tekið úr umferð.

Veitingahúsakeðjan KFC hefur áður legið undir gagnrýni vegna skorts á matvælaöryggi en óhóflegt magn af sýklalyfjum fundust í kjúklingakjöti hjá dreifingaraðila þeirra á árinu 2012.

Í fjölmiðlum ytra var einnig greint frá því að kjöt frá verksmiðjunni væri selt í Ikea, en því hefur þó verið neitað og segja forsvarsmenn fyrirtækisins að viðskiptum við verksmiðjuna hafi verið hætt á síðasta ári. Þá hefur samlokustaðurinn Subway einnig tekið fyrir að nota kjötið þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert