Ár í lífi prins: Georg á afmæli

Georg litli prins, sá þriðji í erfðaröð bresku krúnunnar, fagnar árs afmæli sínu í dag. Vilhjálmur og Katrín foreldrar hans hyggjast halda litla veislu fyrir nánustu fjölskyldu á heimilinu í Kensington-höll í London, en almenningur fékk í gær að sjá nýjar myndir af prinsinum í tilefni tímamótanna.

Þau hjónin sendu um leið frá sér þakkir til almennings fyrir velvild gagnvart litla prinsinum síðustu 12 mánuði. „Við viljum nýta tækifærið á fyrsta afmæli Georgs til að þakka öllum sem við höfum hitt síðasta ár, hvort sem það hefur verið heima eða að heiman, fyrir hlýju og góðar óskir Georg og fjölskyldunni til handa,“ sögðu þau Vilhjálmur og Katrín í gær.

Katrín hertogaynja er sögð hafa bakað sjálf afmæliskökuna sem borin verður fram í dag. Langamma Georgs, Elísabet II drottning, er væntanleg í veisluna, en Filippus prins kemst ekki né heldur afi hans og amma í föðurætt, Karl og Kamilla, sem dvelja nú í Skotlandi eins og jafnan á sumrin.

Vilhjálmur og Katrín eru sögð staðráðin í að veita Georgi eins eðlilegt uppeldi og framast er unnt og reyna að halda honum utan við sviðsljósið. Tilvist hans hefur þó glætt mjög vinsældir konungsfjölskyldunnar og þegar nýjar myndir birtast af honum er þeim jafnan tekið af miklum áhuga.

Viðburðaríkir 12 mánuðir að baki

Fyrsta árið hefur verið viðburðaríkt í lífi Georgs. Þegar hann var aðeins sólarhrings gamall voru augu alls heimsins á honum þegar foreldrarnir stigu stoltir með hann í fanginu út frá St. Mary-sjúkrahúsinu í Paddington. Vilhjálmur prins lét þá hafa eftir sér að hann virtist „sem betur fer“ líkjast móður sinni, en mörgum þykir hann þó bera sterkan svip í föðurætt, ekki síst borið saman við barnamyndir af Vilhjálmi.

Tveggja daga gamall fékk hann nafnið Georg Alexander Loðvík, og um leið titilinn „hans konunglega hátign prinsinn af Cambridge“, en innan fjölskyldunnar ber hann raunar gælunafnið „Georgie“. Hann var þó ekki formlega skírður fyrr en í október, af erkibiskupnum af Kantaraborg, og klæddist hann af því tilefni eftirlíkingu af skírnarkjól sem saumaður var fyrir elstu dóttur Viktoríu drottningar, árið 1841.

Foreldrarnir hafa komið mikið að uppeldinu sjálf og láta t.d. ekki barnfóstru um að baða hann og svæfa nema nauðsyn krefji. Þau hafa viðurkennt að prinsinn litli hafi verið óvær sem ungbarn og grátið mikið, því hann virtist alltaf svangur.

Í vor ferðaðist Georg yfir hálfan hnöttinn til Ástralíu og Nýja-Sjálands í sína fyrstu opinberu heimsókn, þar sem hann fór m.a. á stefnumót með hópi nýsjálenskra barna. Hann er nú allur að mannast og tók fyrir stuttu sín fyrstu skref, sem foreldrarnir festu að sjálfsögðu á mynd.

Víst er að Georgs bíða mörg ævintýri, en þótt ævi barns sé enn óskrifað blað er framtíð hins unga prins af Cambridge kortlagðari en flestra jafnaldra hans. Örlög hans eru óumflýjanleg: Að erfa eitt elsta konungdæmi heims.

Sjá fyrri umfjöllun mbl.is: Hvað bíður breska prinsins?

Þessi mynd af fjölskyldunni var tekin 2. júlí á náttúruminjasafninu …
Þessi mynd af fjölskyldunni var tekin 2. júlí á náttúruminjasafninu í London þar sem Georg prins dáðist að fiðrildum, með foreldrum sínum Katrínu og Vilhjálmi. AFP
Georg prins byrjaði að ganga fyrir eins árs afmælið.
Georg prins byrjaði að ganga fyrir eins árs afmælið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert