Sjá stúlkurnar sínar aldrei aftur

Átök eru tíð í norðurhluta Nígeríu. Öryggi barna á svæðinu …
Átök eru tíð í norðurhluta Nígeríu. Öryggi barna á svæðinu er ógnað á hverjum degi. AFP

Ellefu foreldrar sem áttu stúlkur á meðal þeirra 200 sem var rænt af Boko Haram-skæruliðasamtökunum í Nígeríu í apríl eru látnir. 

Heimabær fjölskyldanna heitir Chibok og þar hafa skæruliðar gert stöðugar árásir undanfarnar vikur.

Sjö feður sem áttu stúlkur sem rænt var voru meðal yfir fimmtíu látinna sem fluttir voru á sjúkrahús í Chibok eftir mikla árás Boko Haram fyrr í júlí. Að minnsta kosti fjórir foreldrar til viðbótar hafa látist vegna heilsubrests, s.s. hjartaáfalla. Fjölskyldurnar kenna álagi um, segir í frétt AP-fréttastofunnar um málið.

Norðurhluti Nígeríu er nú mjög einangraður. Þangað er erfitt að komast, engin flugfélög fljúga þangað lengur. 

Nokkrar stúlkur náðu nýverið að komast úr haldi skæruliðanna. Stúlkurnar neituðu í fyrstu að ræða reynslu sína en eru nú farnar að segja frá, hefur AP-fréttastofan eftir heilbrigðisstarfsmanni sem sinnir þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert