Uppreisnarmenn afhentu flugritana

Uppreisnarmenn í austurhluta Úkraínu afhentu í morgun malasískum sérfræðingum tvo flugrita úr vél MH17 sem skotin var niður á svæðinu. Einn leiðtoga úr liði aðskilnaðarsinna afhenti þá á fundi í borginni Donetsk, þar sem átök geisuðu í gær.

Örfáum klukkustundum áður hafði öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkt samhljóða ályktun þar sem þess var krafist að fullt aðgengi skyldi tafarlaust veitt að brotlendingarstaðnum.

Flugvélin hrapaði til jarðar í afskekktri sveit í austurhluta Úkraínu, um 60 km frá borginni Donetsk sem er undir stjórn aðskilnaðarsinna. Þeir voru því fyrstir á vettvang og hefur verið harðlega gagnrýnt hvernig þeir tóku á málinu, m.a. með því að láta líkin óvarin fyrir hita og sól og leyfa óþjálfuðum sjálfboðaliðum að kemba svæðið. Þrír Hollendingar voru á mánudaginn fyrstu erlendu sérfræðingarnir sem komu á staðinn til að rannsaka líkin, tæpum fjórum sólarhringum eftir hrapið. Þeir sögðu þá að ágætlega hefði verið búið um þau.

Vonast til að flugritarnir veiti svör

Sérfræðingar segja að flugritarnir, sk. „svartir kassar“, geymi upplýsingar um nákvæma tímasetningu og staðsetningu flugvélarinnar þegar hún varð fyrir flugskeytinu. Þá ættu flugritarnir að geyma raddupptöku úr flugstjórnarklefanum, sem vonast er til að gefi vísbendingar um hvað olli því að vélin sprakk og hrapaði til jarðar.

Talsmaður malasísku sendinefndarinnar í Úkraínu sagði blaðamönnum að flugritarnir væru „í góðu standi“ en grunur hefur verið uppi um að uppreisnarmennirnir hafi átt við þá til að fela slóð sína. Forsætisráðherra Malasíu, Najib Razak, ræddi í gær við sjálfskipaðan ríkisstjóra í „Lýðveldinu Donetsk“ sem varð í kjölfarið við beiðnum bæði um að láta flugritana af hendi, leyfa að lík hinna látnu yrðu flutt til borgarinnar Kharkiv og veita rannsakendum fullt aðgengi að svæðinu.

„Síðustu daga hafa komið stundir þar sem mig hefur langað til að tjá með sterkari hætti reiðina og sorgina sem Malasíumenn upplifa núna,“ hefur BBC eftir Razak. „En stundum verðum við að vinna hljóðlega, til þess að fá betri útkomu.“

Fundað um refsiaðgerðir gegn Rússum

Vesturlönd segja vísbendingarnar hlaðast upp um að farþegaflugvél Malaysia Airlines hafi verið skotin niður af uppreisnarmönnum með flugskeyti sem Rússland hafi útvegað þeim, en rússnesk stjórnvöld segja Úkraínustjórn bera ábyrgðina.

Búist er við því að utanríkisráðherrar Evrópusambandsins muni í dag ræða frekari efnahagsþvinganir gegn Rússum, en slíkum refsiaðgerðum var beitt þegar Krímskagi var innlimaður í Rússland og átök brutust út í austurhluta Úkraínu.

Flutningalest með 282 líkum fór í gær frá brotlendingarstaðnum til Donetsk, sem uppreisnarmennirnir hafa á sínu valdi, en búist er við því að hún verði flutt til borgarinnar Kharkiv síðar í dag. Malasískir og hollenskir sérfræðingar eru um borð. Frá Kharkiv verða líkin flutt loftleiðina til Hollands, þar sem réttarmeinafræðingar munu bera kennsl á þau.

Fulltrúi malasísku sendinefndarinnar kannar annan flugritann úr MH17 eftir að …
Fulltrúi malasísku sendinefndarinnar kannar annan flugritann úr MH17 eftir að aðskilnaðarsinnar í Donetsk létu þá af hendi. AFP
Flugritarnir tveir, eða „svörtu kassarnir
Flugritarnir tveir, eða „svörtu kassarnir", eru raunar alls ekki svartir heldur rauðir eins og hér sést. Uppreisnarmenn afhentu malasískum sérfræðingum þá í borginni Donetsk í gær. AFP
Blómahaf við Schiphol flugvöll í Amsterdam. Flestir hinna látnu í …
Blómahaf við Schiphol flugvöll í Amsterdam. Flestir hinna látnu í flugi MH17 voru Hollendingar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert