„Hvenær sjáum við töskurnar aftur?“

Blómvendir liggja í röðum við inngang Schiphol flugvallar í Amsterdam …
Blómvendir liggja í röðum við inngang Schiphol flugvallar í Amsterdam til minningar um fórnarlömbin í flugi MH17. AFP

„Bros, glaðleg andlit, fjölskyldur með börn á leið í sína fyrstu utanlandsferð sem kveðja ömmu og afa á flugvellinum.“ Þetta er meðal endurminninga flugvallarstarfsmannsins Renuku Manisha Virangna Birbal sem sá um innritun í flug MH17 á Schiphol-flugvelli hinn örlagaríka dag 17. júlí.

Birbal skrifaði áhrifamikla færslu á facebooksíðu sína á mánudaginn þar sem hún lýsti þeim fjölmörgu ólíku einstaklingum sem hún átti samskipti við áður en þeir héldu í sitt hinsta flug. Færslunni hefur verið deilt rúmlega tíu þúsund sinnum og um 3.500 manns hafa skrifað við hana athugasemd.

„Nýgift hjón á leið í brúðkaupsferð. Gullfalleg lítil stúlka í fangi móður sinnar, faðir hennar á eftir þeim með barnavagn. Hún er svo fögur, hálfhollensk og hálfmalasísk með falleg, stór augu. Hún brosir blíðlega til mín,“ rifjar hún upp í færslunni.

„Vil frekar hvíla mig í nokkrar klukkustundir“

298 farþegar frá ellefu löndum létust um borð í flugi MH17, þar af 80 börn.

„Tveir knattspyrnuáhugamenn saman á ferðalagi. Aðspurðir hvort þeir vilji sitja saman hlæja þeir og segjast heldur vilja sleppa því. „Ég vil frekar hvíla mig í nokkrar klukkustundir,“ segir annar þeirra glettinn. Spennt ung börn sem spyrja móður sína hvenær þau sjái töskurnar sínar eiginlega aftur. Maður á leið til Malasíu að hefja nýtt líf.“

Birbal endar færsluna á því að biðja þess fyrir hönd allra innritunarstarfsmanna flugs MH17 að hinir látnu hvíli í friði. „Síðast þegar ég sá þau, bauð ég þeim ánægjulegt flug,“ skrifar hún.

Gríðarleg sorg ríkir í Hollandi vegna málsins, en af farþegunum 298 voru 193 Hollendingar. Banda­ríska dag­blaðið Wall Street Journal hef­ur m.a. út­búið gagn­virka teikn­ingu sem út­list­ar alla þá sem ferðuðust um borð í flugi MH17. Ýmsir einstaklingar hafa einnig stigið fram og minnst ættingja sinna sem voru um borð í vélinni, m.a. hollensk móðir sem sagðist sjá son sinn fyrir sér liggja á jörðinni í Úkraínu í hvert sinn sem hún legðist til svefns á kvöldin. Atvikið er enn í rannsókn, en taldar eru líkur á að flugvélin hafi verið skotin niður með flugskeyti aðskilnaðarsinna sem útvegað var af Rússum.

Facebookfærsla Birbal

Minningarathöfn um fórnarlömbin í Melbourne í Ástralíu. Fjölmargir farþegar voru …
Minningarathöfn um fórnarlömbin í Melbourne í Ástralíu. Fjölmargir farþegar voru á leið á ráðstefnu í landinu. AFP
Mótmæli hafa verið við sendiráð Úkraínu í Kuala Lumpur í …
Mótmæli hafa verið við sendiráð Úkraínu í Kuala Lumpur í Malasíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert