Sáu soninn myrtan á Youtube

Blóðug átök voru í Shejaiya hverfinu á sunnudag.
Blóðug átök voru í Shejaiya hverfinu á sunnudag. MAHMUD HAMS

Fjölskylda hins 23 ára gamla Salem Khaleel Shamaly hafði leitað að honum í tvo daga án árangurs þegar þau rákust á hann á myndbandi á vefsíðunni Youtube í gær.

Í myndbandinu sést þegar ungi maðurinn er skotinn af ísraelskri leyniskyttu í Shejaiya, einu hættulegasta hverfi Gaza-svæðisins.

Baráttuhópur fyrir mannréttindum Palestínumanna setti myndbandið á vefinn, en í því sést Shamaly liggja í byggingarrústum eftir skotið og reyna að standa á fætur. Þá heyrast tvö skothljóð til viðbótar og eftir liggur Shamaly hreyfingarlaus.

Joe Catron er einn af þeim mannréttindasinnum sem urðu vitni að skotárásinni. Í samtali við New York Times segir hann að hópurinn hafi ekki átt annarra kosta völ en að flýja vettvang eftir að byssuskotin dundu og skilja Shamaly eftir.

Náfrændi Shamalys, Mohammed Alquattawi, hefur lýst atburðunum á twittersíðu sinni. Hann segir í samtali við New York Times að fjölskyldan hafi reynt að fá Rauða krossinn í lið með sér til þess að sækja lík Shamalys, en samtökin telji Shejaiya-hverfið of hættulegt fyrir slíkt verkefni.

Að minnsta kosti 60 Palestínumenn og 13 Ísraelsmenn létust í átökum í Shejaiya-hverfinu á sunnudag í skotárásum á milli ísraelska hersins og Hamas-samtakanna.

Mbl.is varar við áhorfi á meðfylgjandi myndband.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert