Talið óöruggt að fljúga til Tel Aviv

Flugfarþegar á John F. Kennedy flugvelli í New York bíða …
Flugfarþegar á John F. Kennedy flugvelli í New York bíða í óvissu eftir að flugi þeirra til Tel Aviv var aflýst af öryggisástæðum. AFP

Flugfélagið Royal Jordanian tilkynnti í morgun að öllum flugferðum þess til alþjóðaflugvallarins Ben Gurion í Tel Aviv í Ísrael hefði verið aflýst, eftir að flugskeyti frá Hamas-samtökunum lenti nálægt flugbrautunum.

Royal Jordanian flýgur 20 sinnum í viku til Tel Aviv. Ákvörðunin var tilkynnt stuttu eftir að bandaríska flugmálastofnunin bannaði öllum bandarískum flugfélögum að lenda í Tel Aviv í a.m.k. sólarhring vegna hugsanlegs hættuástands sem hernaðurinn á Gaza gæti skapað.

Þá hefur Flugöryggisstofnun Evrópu, AESA, ráðlagt flugfélögum að forðast Tel Aviv að svo komnu máli.

Varúðarráðstafanirnar eru án efa undir áhrifum frá hinum hörmulegu atburðum í Úkraínu þar sem farþegaþota var skotin niður yfir ófriðarsvæði, sem ekki hafði verið úrskurðað óöruggt af flugmálayfirvöldum.

Yfir 640 Palestínumenn hafa látið lífið í árásum Ísraelshers, auk þess sem 31 Ísraelsmaður er fallinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert