Flugvélin stóðst skoðun í vikunni

Flugvélin hvarf á flugi yfir Malí.
Flugvélin hvarf á flugi yfir Malí.

Flugvél Air Algerie sem hrapaði í Sahara-eyðimörkinni fyrr í dag fór í gegnum skoðun eftirlitsmanna í Marseille í Frakklandi fyrr í vikunni og var í góðu ástandi. Þetta segir Patrick Gandil, yfirmaður frönsku flugmálastjórnarinnar.

„Við skoðun á flugvélinni MD-83 fundum við nánast ekkert að. Hún var í góðu ástandi,“ segir Gandil í samtali við fréttaveituna AFP.

Flug AH5017 var á leið frá Burkina Faso til Alsír þegar flugvélin hvarf á flugi fyrir ofan Malí snemma í morgun. 116 farþegar voru í vélinni og þar á meðal voru að minnsta kosti 50 franskir ríkisborgarar.

Að sögn Gandil hefur Swiftair, flugfélagið sem var með vélina á leigu, gott orð á sér fyrir að standast flugeftirlit en þá hafa yfirvöld á Spáni einnig gott eftirlit með flugfélögum sínum.

„Ég get þó ekki tryggt að þetta hafi eitthvað að gera með það sem olli hrapi vélarinnar,“ segir Gandil og bætir við að ávallt geti komið upp óvæntar bilanir á miðju flugi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert