Hryðjuverkahótun í Noregi

Stjórnvöld í Noregi greindu frá því í morgun að öryggislögreglunni PST hafi borist upplýsingar um yfirvofandi hryðjuverkaárás í landinu innan nokkurra daga, af hálfu öfgamanna sem barist hafi í Sýrlandi. Gripið hefur verið til sérstakra öryggisráðstafana vegna þessa, en ekki er vitað hverjir kunni að standa að baki því, hvenær þeir hyggist ráðast til atlögu né hvar. 

„Við höfum upplýsingar um að hryðjuverk séu fyrirhuguð gegn Noregi innan skamms tíma, líklega innan fárra daga,“ sagði Benedicte Bjørnland, yfirmaður PST, á blaðamannafundi í morgun. „Við höfum fengið upplýsingar sem varða fólk sem hafa tekið þátt í stríðsátökunum í Sýrlandi, en við vitum ekki um þjóðerni viðkomandi,“ sagði hún jafnframt. 

Ekki er því vitað hvort norskir ríkisborgarar eigi aðild að málinu, né hvort mennirnir séu nú þegar í Noregi eða væntanlegir til landsins.

Almenningur sé á varðbergi

Almennir borgarar eru beðnir um að vera vakandi, en á sama tíma var á fundinum varað við því að láta óttann ráða fordómum gegn einstökum hópum samfélagsins. Sérstakur viðbúnaður vopnaðra lögregluvarða verða næstu daga við landamærastöðvar, á flugvöllum og lestarstöðvum.

„Við vitum ekki með hvaða hætti árásin kann að verða. Við skiljum vel að þetta kunni að vekja ótta hjá fólki. Upplýsingarnar sem við höfum fela ekki í sér hótanir gagnvart nafngreindum manneskjum eða stofnunum. Við erum á varðbergi,“ sagði lögreglusstjórinn Vidar Refvik á blaðamannafundinum, samkvæmt vef Aftenposten.

Varnarmálaráðherrann Anders Anundsen segir að það hafi komið fram skýr hótun gegn Noregi og allt sé gert til að mæta þeirri hótun.

Hótanirnar teknar mjög alvarlega

Aftenposten hefur eftir Cato Hemmingby, prófessor við lögregluháskólann í Osló, að afar fátítt sé að PST gefi út fyrirfram viðvaranir sem þessar vegna hugsanlegra árása á landið. Það gefi til kynna að hótanirnar séu teknar mjög alvarlega.

„Þetta sýnir líka að stríðið í Sýrlandi hefur áhrif á okkur hér heima. Það þarf ekki að koma á óvart. Lönd eins og England og Frakkland hafa fengið að finna fyrir þessu í lengri tíma,“ segir Hemmingby.

Fram kemur á vef NRK að í árlegri skýrslu PST á mögulegri ógn við Noreg, sem kynnt var í apríl, sé staðan metin svo að hættan á hryðjuverkum hafi aukist milli ára. Mest hætta stafi af ofstækismönnum úr röðum íslamista, og lýsti PST yfir áhyggjum sínum af því að norskir ríkisborgarar fari auknum mæli til Sýrlands til að taka þátt í stríðinu og komi aftur til Noregs þjálfaðir í stríðsátökum, með þekkingu á vopnum og öfgafullar skoðanir.

Áætlað að um 40-50 menn með tengsl við Noreg hafi barist í stríðinu í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert