Matur og vatn að verða uppurin á Gaza

Yfir hundrað þúsund Palestínumenn hafa misst eða flúið heimili sín, án þess að hafa í neitt skjól að leita undan loftárásum Ísraela. Valerie Amos, sem stjórnar neyðarhjálp Sameinuðu þjóðanna, segir að matarskortur sé að gerða vart við sig hjá íbúum Gaza.

„Við hýsum yfir 118.000 manns í skólum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Fólki vantar mat og vatn er líka mikið áhyggjuefni,“ hefur BBC eftir Amos í dag. Hún segir ástandið á Gaza skelfilegt.

Geta ekki flúið

Góðgerðasamtökin Oxfam vara sömuleiðis við því að matur og vatn séu að verða uppurin á Gaza.  „Hryllilegar raunir almennra borgara eru yfirgengilegar. Það er gríðarlegt álag á sjúkrahús og á vatnsbirgðir og þörfin fer vaxandi dag frá degi. Fólk er á flótta í ofsahræðslu,“ sagði Nishant Pandey, yfirmaður Oxfam í Palestínu og Ísrael.

Pandey bendir á að við svo erfiðar kringumstæður annars staðar í heiminum leggi fólk yfirleitt á flótta burt frá svæðinu. Það geti Palestínumenn hinsvegar ekki gert því þeir séu lokaðir inni. „Varanlegur friður og öryggi fyrir báðar hliðar verður að fela í sér að herkvínni sé aflétt og hætt verði að refsa öllum almenningi á Gaza.“

Um milljón manns eru sögð án öruggs aðgengis að neysluvatni. Oxfam samtökin flytja vatnsbirgðir til um 19.000 manna sem leitað hafa skjóls í moskum, kirkjum, skólum og á Al Shifa sjúkrahúsinu, en loftárásir gera þeim afar erfitt fyrir við dreifinguna.

Ísraelsher hefur skilgreint um 3 km breiðan hlut af Gaza sem hættusvæði þar sem Palestínumenn eru varaðir við því að fara. Það eru um 44% af Gaza-svæðinu. Í gær var sprengju varpað á mosku þar sem fjöldi fólks hafði leitað skjóls.

710 Palestínumenn hafa nú verið drepnir síðan Ísraelsmenn hófu hernað gegn Gaza fyrir rúmum 2 vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert