Óttast hryðjuverk á mánudaginn

Vopnaðir lögreglumenn standa vörð við alþjóðaflugvöllinn í Ósló vegna yfirvofandi …
Vopnaðir lögreglumenn standa vörð við alþjóðaflugvöllinn í Ósló vegna yfirvofandi hryðjuverkaógnar í Noregi. AFP

Norska öryggislögreglan, PST, telur að hópur öfgamanna hafi farið frá Sýrlandi með Noreg í huga sem skotmark hryðjuverka. Óttast er að þeir láti til skarar skríða á mánudaginn. Enn er þó ekki vitað hvar í landinu, en almenningur er beðinn að vera á varðbergi.

Stjórnvöld greindu formlega frá því á blaðamannafundi í gær að fyrir lægju upplýsingar um yfirvofandi hryðjuverkahættu, sem teknar væru mjög alvarlega. Þá var þó ekki greint frá því hverjir grunaðir hryðjuverkamenn væru, þótt ýjað væri að grunsemdum um að þeir hefðu tekið þátt í stríðinu í Sýrlandi.

Norska ríkisútvarpið NRK greinir nú frá því að yfirmaður greiningardeildar PST, Jon Fitje Hoffmann, segi beint út að unnið sé að því að afla meiri upplýsinga um hverja þá sem ferðast hafi frá Sýrlandi til Noregs.

Ekki vitað hvar þeir eru niður komnir

„Við höfum upplýsingar sem gefa til kynna að hópur manna hafi ferðast frá Sýrlandi inn í Evrópu með það að sjónarmiði að fremja hryðjuverk þar sem Noregur kann að vera skotmarkið,“ segir Fitje Hoffmann í samtali við NRK. 

Ekki er vitað með vissu hvar téður hryðjuverkahópur er núna, hvort hann sé enn á leiðinni eða kominn til Noregs. Mikill viðbúnaður hefur verið á landamærastöðvum Noregs undanfarinn sólarhring, sem og á flugvöllum og lestarstöðvum.

Afar óvenjulegt er að gefin sé út jafn opinská viðvörun gegn hugsanlegri hryðjuverkaógn. Fitje Hoffmann segir við NRK að helsta ástæða þess að það var gert sé sú staðreynd að vísbendingar séu um að hryðjuverkið verði framið í nánustu framtíð, á allra næstu dögum. Á mánudaginn hefst Id, hátíð múslíma í kjölfar Ramadan-föstumánaðarins, og er það talin líkleg dagsetning til hryðjuverka, m.a. samkvæmt áhættumati National Counterterrorism Center í Bandaríkjunum.

Enginn hefur verið handtekinn vegna málsins.

Sjá fyrri frétt mbl.is: Hryðjuverkahótun í Noregi

Dóms- og öryggismálaráðherrann Anders Anundsen, Benedicte Bjoernland, forstjóri PST, og …
Dóms- og öryggismálaráðherrann Anders Anundsen, Benedicte Bjoernland, forstjóri PST, og lögreglustjórinn Vidar Refvik á blaðamannafundinum í Ósló í gærmorgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert