SÞ fordæma árás á skóla á Gaza

Að minnsta kosti tveir Palestínumenn létu lífið og 200 særðust þegar mótmæli voru haldin á Vesturbakkanum gegn hernaði Ísraela á Gaza. Um 10.000 manns fóru mótmælaögngu frá Ramallah að Austur-Jerúsalem, þar sem þeim lenti saman við ísraelska öryggislögreglu.

Það var Fatah hreyfingin, flokkur Mahmud Abbas forseta Palestínu, sem boðaði mótmælin í gærkvöldi. Fréttaritari BBC, Nawal Assad, segir að palestínsk ungmenni hafi kastað steinum og molotov-kokteilum í átt að eftirlitsstöðvum Ísraelshers, og óeirðalögreglumenn hafi tekið á móti með því að skjóta gúmmíkúlum og táragasi.

Sprengju varpað á neyðarskýli SÞ

Í gær létu a.m.k. 15 manns lífið og yfir 200 særðust þegar skotið var á Beit Hanoun skóla þar sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu sett upp neyðarskýli fyrir nokkur af þeim þúsundum manna sem hafa misst eða flúið heimili sín á Gaza. Sprengjan lenti á skólalóðinni, þar sem fólk hafði komið upp tjöldum.

Þetta var í fjórða sinn á jafnmörgum dögum sem starfsstöð á vegum SÞ varð fyrir árás. BBC hefur eftir fréttariturum að blóðpollar hafi verið á skólalóðinni eftir árásina, sem Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur fordæmt. Talsmaður Ísraelshers, hershöfðinginn Peter Lerner, fullyrðir í samtali við BBC að árásin á skólann hafi ekki verið á þeirra vegum. „Sameinuðu þjóðirnar eru ekki okkar skotmark. Við ráðumst ekki gegn almennum borgurum. Skólinn var ekki skotmark,“ sagði hann.

Þá sagði Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísraels, í gær að hann harmaði hvert dauðsfall almenns borgara í Palestínu, en bætti við að þau væru „á ábyrgð Hamas“.

Yfir 800 Palestínumenn hafa nú verið drepnir síðan Ísraelsmenn hófu hernaðaraðgerðir á Gaza fyrir tveimur vikum. Þá hafa 35 Ísraelsmenn fallið.

Leiðtogar Palestínumanna á Vesturbakkanum hafa kallað eftir „degi reiðinnar“ í dag, síðasta degi Ramadan, föstumánaðar múslíma. Þetta kemur fram á vef BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert