Árásir Ísraelsmanna halda áfram

AFP

Sextán Palestínumenn, sem koma allir úr sömu fjölskyldunni, létu lífið í loftárásum ísraelska hersins í nótt, aðeins klukkustund áður en vopnahlé á Gaza-svæðinu tók gildi. Árásin átti sér stað í borginni Khan Yunis í suðurhluta Gaza-svæðisins, að sögn lækna á sjúkrahúsi borgarinnar.

Ekki hefur verið borið kennsl á líkin en talsmaður sjúkrahússins segir að nokkur börn hafi verið á meðal þeirra sem féllu.

Átökin á svæðinu hafa geisað í næstum þrjár vikur. Tala látinna hefur farið ört hækkandi og er nú talið að 891 Palestínumaður hafi látið lífið og 37 Ísraelsmenn, þar af 34 hermenn.

Vopnahléið, sem stjórnvöld í Ísrael og Hamas-samtökin samþykktu að boða til seint í gærkvöldi, tók gildi klukkan fimm á íslenskum tíma í morgun. Vopnahléið stendur yfir í tólf klukkustundir. Í frétt AFP segir að viðræður um lengra og jafnvel varanlegt vopnahlé standi enn yfir.

Talsmaður Hamas sagði í gærkvöldi að samkomulag hefði náðst milli samtakanna og ísraelska stjórnvalda um tólf tíma vopnahlé „af mannúðarástæðum“.

Í gær voru fimm Palestínumenn skotnir til bana af ísraelskum hermönnum á Vesturbakkanum. Árás Ísraela á skóla á vegum Sameinuðu þjóðanna á Gaza-ströndinni á fimmtudag, sem banaði sextán Palestínumönnum, varð kveikjan að mótmælunum á Vesturbakkanum en leiðtogar Palestínumanna höfðu efnt til „dags reiði“ vegna harmleiksins. Mótmælin voru þau fjölmennustu á Vesturbakkanum í fjölda ára.

Fimm Palestínumenn voru skotnir til bana af ísraelskum hermönnum og landtökumönnum á Vesturbakkanum í gær. Árás Ísraela á skóla á vegum Sameinuðu þjóðanna á Gaza-ströndinni á fimmtudag sem banaði sextán Palestínumönnum varð kveikja mótmæla á Vesturbakkanum en leiðtogar Palestínumanna höfðu efnt til „dags reiði“ vegna harmleiksins. Mótmælin voru þau fjölmennustu á Vesturbakkanum í fjölda ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert