Ekki raunhæft að senda herlið

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, á blaðamannafundi í dag.
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, á blaðamannafundi í dag. AFP

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, segir það óraunhæft að senda vopnaðar, alþjóðlegar hersveitir til að tryggja vettvanginn við brak malasísku farþegavélarinnar MH17 sem skotin var niður í Austur-Úkraínu. Hann segir að átök á svæðinu á milli aðskilnaðarsinna og úkraínskra hermanna spilli friði á svæðinu og komi í veg fyrir að hægt sé að nálgast braksvæði vélarinnar.

Á meðan slíkt ástand ríki sé óraunhæft að senda alþjóðlegt herlið á vettvang. Rutte segir hins vegar að hollensk stjórnvöld skoði nú alla möguleika til að tryggja vettvanginn.

Greint var frá því fyrr í dag að hollenskir sérfræðingar hefðu hætt við frekari rannsókn á braksvæði vélar MH17. „Á meðan átök­in geisa get­um við ekki tekið þessa áhættu. Öryggisráðstaf­an­ir á svæðinu eru al­gjör­lega óviðun­andi,“ sagði Alexander Hug hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.

All­ir 298 farþegar malasísku flug­vél­ar­inn­ar féllu þegar hún var skot­in niður þann 17. júlí síðastliðinn. Mikill meirihluti farþega var af hollenskum uppruna. Talið er að aðskilnaðarsinnar í austurhluta Úkraínu, sem eru hliðhollir rússneskum stjórnvöldum, hafi skotið vélina niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert