Írönskum nemendum vísað frá Noregi

Tækniháskólinn í Þrándheimi.
Tækniháskólinn í Þrándheimi. Mynd/Wikipedia

Að minnsta kosti tíu framhaldsnemar frá Íran hafa fengið bréf frá útlendingastofnun Noregs þar sem þeim er gert að yfirgefa landið. Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu.

Í bréfinu segir að löggæsluyfirvöld í Noregi telji að menntun þeirra í Noregi geti leitt til þess að mikilvæg þekking leki til Írans og gagnist við uppbyggingu kjarnorkuiðnaðarins þar í landi.

Yfirvöld í Noregi telja að með því að aðstoða Íran brjóti Noregur alþjóðasamninga, en kjarnorkuáætlun Írans þykir mjög umdeild.

Hin 27 ára gamla Hamideh Kaffash er ein þeirra nemenda sem hafa fengið bréf útlendingastofnunar. Hún ráðgerði að hefja doktorsnám við Tækniháskólann í Þrándheimi í haust. Hún segist ekki hafa trúað fregnunum þegar hún heyrði þær fyrst.

Hún segir menntasvið sitt ekki tengjast kjarnorku á neinn hátt. „Ég vinn að verkefni sem hefur það markmið að draga úr koltvísýringslosun í járnblendiframleiðslu. Þetta er umhverfisvænt verkefni sem að er að skjóta rótum í Íran,“ segir Kaffash.

Skólastjórnendur í Þrándheimi segja að ákvörðunin sé byggð á röngum forsendum og leggja sitt af mörkum við að fá hana niðurfellda. Stofnuð hefur verið Facebook-síða til stuðnings nemendanna auk þess sem undirskriftalisti hefur verið settur á netið.

Norska lögreglan hefur ekki viljað tjáð sig um bréfasendingarnar. Í tilkynningu í byrjun júnímánaðar sagði lögreglan þó að fjölmörgum nemendum frá Íran hefði verið neitað um landvistarleyfi í Noregi. Þar kom einnig fram að frá árinu 2012 hefur írönskum nemendum í tækninámi í Noregi fjölgað gríðarlega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert