Á góðar minningar um Costa Concordia

Costa Concordia að koma til Genúa.
Costa Concordia að koma til Genúa. AFP

Karlmaður sem fór í brúðkaupsferð í skemmtiferðaskipinu Costa Concordia skömmu áður en það strandaði í janúar árið 2012 vinnur nú við að rífa það niður í brotajárn. 

„Ég geri það sem ég þarf að gera. En ég mun ekki geta hætt að hugsa um káetuna þar sem við eyddum bestu vikum lífs okkar,“ segir Lorenzo Capizzi. Costa Concorida var dregið af strandstað í síðustu viku. Skipsflakið er nú komið til borgarinnar Genúa þar sem það verður rifið niður í brotajárn.

Capizzi og Laura Ponte fóru í brúðkaupsferð í skemmtiferðaskipinu fimm mánuðum áður en það strandaði. Costa Concordia var mikið lúxusfley en um borð voru glæsilegir veitingastaðir, sundlaugar og spilavíti. 32 létust er skipið strandaði við strendur ítölsku eyjunnar Giglio.

Capizzi segist smeykur við að skoða káetuna en hún er líklega ekki mikið skemmd, þar sem hún var á því þilfari skipsins sem ekki fór undir sjó.

„Það er ekki hægt að ganga um skipið án þess að finna fyrir angistinni og hræðslunni sem heltók fólkið er skipið strandaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert