Vill hverfa frá frjálslyndu lýðræðisríki

Viktor Orban
Viktor Orban AFP

Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban, sagði að hann vildi hverfa frá frjálslyndu lýðræði í þágu ófrjálslynds lýðræðisríkis og vísaði hann til Rússlands og Tyrklands í því samhengi.

 „Heimskreppan árið 2008 sýndi að frjálslynd lýðræðisríki geta ekki viðhaldið samkeppnishæfni sinni á heimsvísu,“ sagði Orban á fundi ungverskra leiðtoga á laugardag, samkvæmt fréttaveitunni Bloomberg.

„Ég held að aðild okkar að Evrópusambandinu komi ekki í veg fyrir það að við getum byggt ólýðræðislegt ríki, byggt á þjóðlegum grunni,“ sagði Orban. Hann nefndi Rússland, Tyrkland og Kína sem dæmi um þjóðir sem hefðu náð árangri: „Ekkert þeirra er frjálslynt og í sumum þeirra er ekki einu sinni lýðræði.“

Orban, sem var endurkjörinn í apríl, hefur tekist á við ESB þar sem hann hefur sankað að sér meiri völdum en nokkur forvera hans síðan eftir fall járntjaldsins árið 1989. Hefur hann skipt út forsvarsmönnum sjálfseignarstofnana og dómstóla og sett bandamenn sína í staðinn, hert stjórn og eftirlit með fjölmiðlum og breytt kosningareglum til að hjálpa honum að viðhalda meirihluta á þinginu.

Orban, sem var áður fyrr leiðtogi stúdentasamtaka, segist hafa verið frjálslyndur og barist gegn kommúnisma á árum áður. Hann hefur nú styrkt samband sitt við Vladimír Pútin Rússlandsforseta og aðra leiðtoga frá Kína, Aserbaídsjan og Kasakhstan frá árinu 2010 með það að markmiði að styrkja viðskiptasamband þjóðanna.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert