Hryðjuverkaógnin kostar sitt

Vopnaðir lögreglumenn við gæslu á aðallestarstöðinni í Ósló.
Vopnaðir lögreglumenn við gæslu á aðallestarstöðinni í Ósló. AFP

Lögregluembætti Noregs munu ekki þurfa að taka á sig kostnaðinn af auknum öryggisráðstöfunum vegna hótana um hryðjuverk. Þetta sagði fjármálaráðherra Noregs í morgun, en ljóst er að viðbúnaðurinn kostar mikið. Lykilbyggingar í Ósló eru enn lokaðar í dag af öryggisástæðum, en frá og með deginum í dag verður öryggisgæsla þó smám saman tröppuð niður.

Norska ríkisútvarpið NRK sagði frá því í gærkvöldi að reikningurinn vegna viðbúnaðarins í landinu yfir helgina hlaupi nú þegar á tugum milljóna norskra króna. Ríkislögreglustjóri og dómsmálaráðherra Noregs sögðust þá aðspurðir ekki vita hver tæki kostnaðinn á sig, en Erna Jensen fjármálaráðherra Noregs sagði í morgun að reikningurinn yrði greiddur úr ríkissjóði. 

„Noreg vantar ekki peninga, og mér finnst þetta eiginlega tilefnislaus spurning. Öryggi kostar, og það er eitthvað sem við verðum að vera tilbúin að borga fyrir,“ sagði Jensen í samtali við NRK í morgun.

Dregið hefur verið úr viðbúnaði í dag en áfram verða vopnaðir lögreglumenn sjáanlegir á götunum um einhvern tíma. „Hvort það verður í nokkra daga eða vikur getum við ekki sagt til um núna. Við tökum enn mið af áhættumatinu frá síðasta fimmtudegi,“ hefur NRK eftir lögreglustjóranum Odd Reidar Humlegård.

Bæði ráðhúsið og konungshöllin í miðborg Óslóar eru lokuð í dag og í þinghúsinu eru enn miklar öryggisráðstafanir, að því er fram kemur á vef Aftenposten. Norðmenn hafa nokkrar áhyggjur af því að hryðjuverkaógnin hafi áhrif á orðspor landsins og segir ferðamálastjóri Óslóborgar að fréttirnar kunni að fæla einhverja ferðamenn frá því að heimsækja borgina.

Siv Jensen er fjármálaráðherra Noregs.
Siv Jensen er fjármálaráðherra Noregs. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert