„Kraftaverkabarnið“ á Gaza

Shayma Shiekh al-Eid er aðeins nokkurra daga gömul og getur bara andað með hjálp súrefnisgrímu. Hún er nefnd í höfuðið á móður sinni en jafnframt kölluð „kraftaverkabarnið“ á Gaza því hún lifði af loftárás Ísraelsmanna með ótrúlegum hætti. Hún var tekin með keisaraskurði fyrir tímann úr kviði látinnar móður sinnar.

„Hún grófst undir þremur hæðum. Hún var í þrjá og hálfan tíma undir rústunum. Hvað gerði hún af sér? Hún var aðeins 23 ára gömul og hafði verið gift í 13 mánuði. Hvað gerði hún af sér?“ spurði móðuramma kornabarnsins, en sprengju var varpað á heimili ungu hjónanna á Gaza í síðustu viku.

Gæti verið sködduð fyrir lífstíð

Hin verðandi móðir var dregin undan rústunum og flutt á sjúkrahús þar sem læknar úrskurðuðu hana látna, en svo urðu þeir varir við að kviður hennar hreyfðist enn. Læknirinn Fadi Kherti á Nasser-sjúkrahúsinu í suðurhluta Gaza, segir í samtali við Afp að konan hafi verið gengin tæpa níu mánuði. Ljósmóðir hafi verið kölluð til og ákveðið að koma barninu samstundis í heiminn.

Þrátt fyrir skjót viðbrögð heilbrigðisstarfsfólks var Sheyma í rúma klukkustund í kvið látinnar móður sinnar, sem mun að líkindum hafa langtímaáhrif á heilsufar hennar. „Þegar móðirin dó varð barnið fyrir súrefnisskorti og það hefur áhrif á þroska heilans,“ segir dr. Karim al-Bawab í samtali við Afp.

„Við vonum að áhrifin af þessu verði minniháttar og að hún komist yfir áfallið.“

Faðirinn einnig særður og framtíðin óljós

Sheyma mun liggja a.m.k. þrjár vikur á sjúkrahúsinu, en möguleikar hennar á umönnun og eftirliti til langs tíma eru af skornum skammti á hinu stríðshrjáða Gaza. Ekkillinn faðir hennar, 27 ára gamall blaðamaður, særðist alvalarlega í sprengjuárásinni.

Palestínska stúlkan Shayma Sheikh al-Eid liggur í hitakassa á Nasser …
Palestínska stúlkan Shayma Sheikh al-Eid liggur í hitakassa á Nasser sjúkrahúsinu, en hún var tekin með keisaraskurði úr kviði látinnar móður sinnar eftir sprengjuárás á Gaza. AFP
Læknir hugar að Shayma litlu á Nasser sjúkrahúsinu þar sem …
Læknir hugar að Shayma litlu á Nasser sjúkrahúsinu þar sem hún mun liggja næstu vikurnar, en framtíð hennar er óráðin. AFP
Palestínska stúlkan Shayma Sheikh al-Eid liggur í hitakassa á Nasser …
Palestínska stúlkan Shayma Sheikh al-Eid liggur í hitakassa á Nasser sjúkrahúsinu, en hún var tekin með keisaraskurði úr kviði látinnar móður sinnar eftir sprengjuárás á Gaza. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert