Langaði að kryfja einhvern

Lögregla í Japan.
Lögregla í Japan. AFP

Sextán ára stúlka er í haldi lögreglu eftir að hún játaði að hafa myrt skólasystur sína á laugardagskvöld. Stúlkan sem er japönsk bjó ein í borginni Sasebo eftir að móðir hennar lést úr krabbameini í fyrra. Hún viðurkenndi fyrir lögreglu að tilefni morðsins væri að hana langaði að kryfja einhvern.

Stúlkan var handtekin á sunnudag eftir að lögregla fann á rúmi í íbúð hennar lík fimmtán ára skólasystur stúlkunnar. Var hún þá búin að saga af fórnarlambi sínu úlnlið vinstri handar auk þess sem stór skurður var á maga þess. „Mig langaði að myrða einhvern og ég keypti tólin til þess,“ hefur dagblaðið Yomiuri eftir stúlkunni og vísar til lögregluskýrslu.

Þá segir dagblaðið Nippon að stúlkan hafi viðurkennt fyrir lögreglu að hana hafi langað að kryfja einhvern. Lögregla hins vegar hefur neitað að staðfesta þá frásögn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert