Sumardvalarstaður verður flóttamannabúðir

Almenningur í austurhluta Úkraínu flýr nú átökin þar unnvörpum og flykkjast margir í strandbæinn Sjedove við Azov-haf. Bærinn er vinsæll sumardvalarstaður á sumrin en er nú að breytast í nokkurs konar flóttamannabúðir.

„Þaðan sem ég kem fór um helmingur íbúa á sama tíma og ég,“ segir ung móðir sem blaðamaður Afp ræddi við í Sjedove. „Ég er viss um að margir til viðbótar hafa flúið núna. Bara gamla fólkið og þeir sem geta sig hverti hrært eru eftir. Það var tilviljun ein að ég frétti af því að flóttafólk væri hýst hérna,“ segir hún.

Aðrar flóttakonur segjast ekki hafa getað sofið heima hjá sér í tvær nætur í röð af ótta og stöðugar sprengingar hafi verið frá morgni til kvölds. Það hafi gert útslagið. „Þetta er barátta upp á líf og dauða. Við ákváðum að bjarga sjálfum okkur,“ segja þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert