Lýsa Ísrael sem hryðjuverkaríki

Evo Morales, forseti Bólivíu.
Evo Morales, forseti Bólivíu. AFP

Stjórnvöld í Bólívíu sögðu í dag upp samningi við Ísrael um undanþágur frá vegabréfsáritunum í mótmælaskyni við aðgerðir Ísraela á Gaza og lýstu því yfir sem hryðjuverkaríki.

Forseti Bólivíu, Evo Morales, tilkynnti um þetta á fundi í borginni Cochabamba í dag. „Þetta þýðir með öðrum orðum að við séum að lýsa Ísrael yfir sem hryðjuverkaríki,“ sagði hann.

Samningurinn hefur gert ísraelskum ríkisborgurum kleift að ferðast án vegabréfsáritunar til Bólivíu frá árinu 1972. Morales sagði hernaðaraðgerðirnar á Gaza sýna að Ísrael beri ekki virðingu fyrir lífi og þeim grundvallarreglum sem stuðla að friðsæld og jafnvægi í alþjóðasamskiptum.

Stjórnvöld í Bólivíu slitu diplómatískum tengslum við Ísrael árið 2009 vegna hernaðaraðgerða þeirra á Gaza. Fyrr í þessum mánuði lagði Morales fram beiðni hjá Sameinuðu þjóðunum um að stjórnvöld í Ísrael yrðu saksótt vegna glæpa gegn mannkyninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert