Skólum lokað í Líberíu vegna ebólu

Ebóla - Skólum verður lokað í Líberíu til að koma …
Ebóla - Skólum verður lokað í Líberíu til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar AFP

Stjórnvöld í Líberíu hafa tilkynnt að öllum skólum landsins verði lokað til að koma í veg fyrir útbreiðslu hinnar mannskæðu ebóla-veiru sem hrjáð hefur landið. Ríkisstarfsmenn sem ekki eru taldir bráðnauðsynlegir að svo stöddu verða sendir heim í tuttugu daga og verður herinn kallaður út til að framfylgja þessu.

Ellen Johnson Sirleaf, forseti Líberíu, tilkynnti þessar ráðstafanir í sjónvarpsræðu þar sem hún ávarpaði landsmenn sína. Þá sagði hún að föstudaginn 1. ágúst yrði ekki unnið í Líberíu svo víðtæk sótthreinsun gæti átt sér stað.

Meðferðarmiðstöðvar í höfuðborg landsins eru yfirfullar og undir miklu álagi, að sögn fréttaritara BBC í Vestur-Afríku. Í sumum tilfellum hafa heilbrigðisstarfsmenn neyðst til að hafa sjúklinga sína til meðferðar á heimilum sínum.

Alls hafa 672 látist af völdum veirunnar í Vestur-Afríku, samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna. Talið er að um 90% þeirra sem smitast af ebólu hljóti af bana, en sjúklingar eiga meiri lífslíkur ef meðferð hefst skömmu eftir smit. Veiran berst með líkamsvessum smitaðra. Hún er sú mannskæðasta sem sögur fara af. 

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins, BBC, greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert