SÞ saka Ísrael um árás á flóttafólk

Palestínumaður hvílir sig á borðum í skólastofu í Jabaliya 19. …
Palestínumaður hvílir sig á borðum í skólastofu í Jabaliya 19. júlí. Í nótt var gerð árás á skólann og 16 manns létu lífið. AFP

Ísraelsmenn gerðu banvæna árás á barnaskóla sem notaður var til að hýsa flóttafólk á Gaza, og það þrátt fyrir aðvaranir um að þar væru almennir borgarar. Þetta sagði Chris Gunness talsmaður Sameinuðu þjóðanna í dag og bætti því við að skömm Ísraela væri mikil. 15 manns létu lífið í árásinni, samkvæmt því sem fram kemur á vef BBC, en 16 samkvæmt frétt Afp.

BBC hefur eftir Gunness að Ísraelsmönnum hafi verið sagt það 17 sinnum að skólinn í Jabaliya væri flóttamannabúðir. „Síðasta skiptið sem við sögðum þeim það var klukkustund fyrir hina banvænu árás,“ sagði hann. Bob Turner, framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar SÞ gagnvart Palestínu (UNRWA) segist þess fullviss að Ísraelsher sé ábyrgur fyrir árásinni. Samtökin fordæma framferði Ísraels sem þau segja alvarlegt brot á alþjóðalögum.

Þetta er í sjötta sinn síðan hernaðurinn hófst, og annað sinn á innan við viku, sem skólabyggingar með flóttamannabúðum SÞ verða fyrir árás. Stjórnvöld í Ísrael saka Hamas-hreyfinguna um að nota skólabyggingar sem bækistöðvar til að skjóta flugskeytum frá. Þau hafa ekki brugðist við ásökunum Sameinuðu þjóðanna í dag.

Söfnuðu líkamshlutum í poka

Tveimur sprengikúlum var skotið á skólabygginguna í úthverfinu Jabaliya. Önnur þeirra lenti á jarðhæðinni, þar sem fólk hafðist við í skólastofu, en hin á efri hæðinni sem mun hafa verið mannlaus. Á skólalóðinni voru geymd hross og asnar sem urðu fyrir sprengjubrotum og lágu dauðar skepnur í blóðpolli innan um önnur dýr sem voru tryllt úr hræðslu, þegar blaðamann Afp bar að garði.

Inni í hálfhrundri skólastofu voru tveir ungir menn með palestínska skátaklúta að tína saman líkamshluta og safna á plastpoka. Þeir höfðu enga vettlinga, að sögn blaðamanns Afp, og voru því alblóðugir á höndum. Flóttafólkið er sagt hafa verið sofandi þegar sprengjan lenti á skólanum.

„Þeir sprengja hús, heimili skóla, það er hvergi vernd að fá,“ sagði einn þeirra sem lifði af, Moin al-Athamna, í samtali við Afp. „Það voru börn hérna inni, ungt fólk. Afhverju gera þeir þetta? Hvert getur fólk farið,“ sagði annar eftirlifandi, Hisham al-Masri.

Fréttaritari Afp segir að í klukkustund áður en sprengju var varpað hafi skriðdrekar Ísraelshers farið um hverfið með stöðugri skothríð.

Leita skjóls sem hvergi er að finna

Með dauðsföllunum í nótt er tala látinna á Gaza komin yfir 1.270 manns. Eins og ítrekað hefur komið fram er stór hluti þeirra, minnst þriðjungur, almennir borgarar, konur og börn. Síðustu dagar hafa verið afar blóðugir á Gaza, um 100 manns voru drepnir á mánudag og yfir 50 í gær. Það sem af er miðvikudegi hafa 67 verið drepnir.

Sameinuðu þjóðunum telst til að allt að 240.000 Palestínumenn hafi flúið heimili sín á Gaza, þar sem alls búa um 1,7 milljón manna. Þetta þýðir að 1 af hverjum 7 íbúum Gaza er heimilislaus, og mörg þeirra hafast einmitt við á göngum sjúkrahúsa og í skólabyggingum á vegum UNRWA í von um að þar séu þau örugg.

Palestínskir drengir rannsaka eyðilegginguna sem varð á mosku í Gazaborg …
Palestínskir drengir rannsaka eyðilegginguna sem varð á mosku í Gazaborg eftir sprengjuárás í morgun. AFP
Palestínskar stúlkur sem særðust í árás Ísraelshers á Jabalia skólann …
Palestínskar stúlkur sem særðust í árás Ísraelshers á Jabalia skólann þar sem Sameinuðu þjóðirnar hýstu flóttafólk. AFP
Ísraelskir hermenn föðmuðust í morgun þegar þeir voru komnir aftur …
Ísraelskir hermenn föðmuðust í morgun þegar þeir voru komnir aftur yfir landamærin eftir dagsverkið á Gaza. AFP
Palestínumenn syrgja ættingja sem létu lífið í árás á Jabalia …
Palestínumenn syrgja ættingja sem létu lífið í árás á Jabalia grunnskólann þar sem Sameinuðu þjóðirnar hýstu flóttafólk. AFP
Palestínumenn virða fyrir sér skemmdirnar í Jabalia skólanum í Gaza, …
Palestínumenn virða fyrir sér skemmdirnar í Jabalia skólanum í Gaza, þar sem Ísraelsher gerði árás á flóttamannabúðir Sameinuðu þjóðanna í nótt. AFP
Í birtingu kom í ljós eyðilegging eftir árásir næturinnar, þar …
Í birtingu kom í ljós eyðilegging eftir árásir næturinnar, þar á meðal þessi mínaretta sem féll við mosku sem varð fyrir sprenjguárás. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert