„Vaknar einn daginn og ert fíkill“

Nini Stoltenberg, yngri systir Jens Stoltenbergs lést í dag, 51 …
Nini Stoltenberg, yngri systir Jens Stoltenbergs lést í dag, 51 árs gömul. Mynd/NRK

Nini Stoltenberg, yngri systir Jens Stoltenbergs, verðandi framkvæmdastjóra Nato og fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, lést í dag 51 ár að aldri. Líkt og bróðir hennar var hún mikið í sviðsljósi fjölmiðla en hún talaði opinskátt um heróínfíkn sína auk þess sem hún barðist fyrir breyttri fíkniefnalöggjöf. 

Faðir þeirra Nini og Jens er Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi ráðherra og diplómati. Hann lýsir sambandi hans og dóttur sinnar í samtali við Verdens gang í dag. „Í mínum augum verður Nini alltaf þessi opna og glaða manneskja sem hún var. Það bókstaflega skein af henni gleðin.“

Fyrr á þessu ári ræddi Jens um hvernig samband hans við systur sína var í gegnum árin. „Mér þykir afar vænt um hana, við deildum herbergi þegar við vorum yngri. Nini kenndi mér margt um þjóðfélagið séð frá sjónarhorni þeirra sem minna mega sín. Samband hennar við fíkniefnin hefur verið sársaukafullt en það hefur ekki staðið í vegi fyrir vináttu okkar.“

Nini hafnaði snemma í kastljósi fjölmiðla sem dóttir ráðherra. Hún var mikill pönkari og sagðist fyrst hafa prófað að reykja hass aðeins 12-13 ára gömul. Þá var hún í hópi hústökufólks og var ein af upphafsmanneskjunum á bakvið samfélag pönkara í Osló, hópur sem kenndur er við húsnæðið Blitz. 

Vinnandi á virkum dögum, fíkill um helgar

Síðar varð hún þáttastjórnandi á sjónvarpsstöðinni TV3 áður en hún lærði lögfræði. Eftir nám hélt hún þó áfram að vinna í sjónvarpi. Hún hefur lýst því hvernig hún gat unnið eðlilega vinnu alla virka daga, en sótti svo í sterk eiturlyf um helgar. „Þú verður ekki eiturlyfjafíkill eftir að hafa prófað heróín tvisvar, þrisvar. „En það er alveg hrikalega gott. Eiturlyfið kemur í staðin fyrir mat, ást, sorg og gleði. Þú þarft ekkert annað. Og af því að þú notar það oftar og oftast þá vaknar þú einn daginn og ert orðinn fíkill. Þú þarft ekki efnið til þess að öðlast vellíðan, heldur bara til þess að yfirhöfuð geta komist fram úr rúminu. Þá er hamingjutilfinningin farin og þú ert orðin fíkill,“ sagði hún í viðtali fyrir nokkrum árum síðan. 

Alltaf ósammála þegar kom að fíkniefnum

Nini helgaði sig síðan baráttunni fyrir breyttri fíkniefnalöggjöf. Árið 2003 var hún skipuð í hóp sem átti að fara yfir þáverandi löggjöf og leggja til breytingar. Í starfi sínu í þeim hópi, gagnrýndi hún margar fyrri ríkisstjórnir fyrir ákvarðanir þeirra, þar á meðal ríkisstjórn bróður síns. „Við verðum að viðurkenna að baráttan fyrir fíkniefnalausu samfélagi er töpuð,“ sagði hún opinberlega í ræðu árið 2003. Í málaflokki fíkniefna voru hún og bróðir hennar alltaf ósammála. Thorvald, faðir hennar, snerist þó á hennar band og hefur hann á undanförnum árum verið í fararbroddi baráttunnar fyrir lögleiðingu kannabiss í Noregi. 

Sjá umfjöllun Verdens gang um ævi Nini Stoltenberg

Jens Stoltenberg.
Jens Stoltenberg. Mynd/AFP
Mynd/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert