Gæti tekið ár að bera kennsl á líkin

 Það gæti tekið nokkur ár að bera kennsl á lík allra þeirra sem fórust með flugvél Air Algerie í Malí í síðustu viku. 118 voru um borð. Enginn komst lífs af. Vélin var á leið frá Búrkína Fasó til Algeirsborgar er hún hrapaði í vonskuveðri yfir eyðimörkinni í Malí.

„Það er of snemmt að segja en það gæti tekið vikur, mánuði og jafnvel ár að bera kennsl á öll líkin,“ segir Abdelkader Kara Bouhadba, lögreglustjórinn sem fer með rannsókn málsins.

Hann segir það þó forgangsmál að bera kennsl á líkin.

Þrettán alsírskir réttarmeinafræðingar eru nú á slysstaðnum ásamt samstarfsmönnum frá Frakklandi, Malí og Spáni.

Á meðal þeirra sem fórust voru 54 Frakkar, átta Líbanar, 23 Búrkínar, sex Alsíringar og sex Spánverjar.

Bouhadba segir erfitt fyrir réttarmeinafræðinga að athafna sig á svæðinu og greina þær líkamsleifar sem þegar hafa fundist. Gríðarlegur hiti er á svæðinu.

Líkin eru flest sundurtætt eftir hrap vélarinnar. Því verða réttarmeinafræðingarnir oft að styðjast við DNA-sýni til að bera kennsl á líkin. 

François Hollande, forseti Frakklands, segir að flogið verði með lík allra sem fórust, ekki aðeins Frakkanna, til Frakklands til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert