Kýldi sel og var rekinn úr landi

Munkselir eru sérlega fágætar skepnur.
Munkselir eru sérlega fágætar skepnur. Af Wikipedia

Karlmaður fékk sekt og var rekinn úr landi eftir að hafa kýlt sel í Króatíu. Um var að ræða munksel sem er í mikilli útrýmingarhættu.

Hópur ferðamanna og íbúa úr nágrenninu höfðu komið saman í Gortan-flóa á Istria-skaga, sem er friðland sela, er hinn 56 ára gamli maður hljóp af stað og byrjaði að kýla sel með hnefunum. Maðurinn er frá Makedóníu.

Selurinn slasaðist ekki alvarlega en náði að flýja undan manninum út í sjó. 

Maðurinn fékk 210 evra sekt fyrir ofbeldið og var rekinn úr landi. Hann má ekki koma til Króatíu næstu fimm árin. Er þetta gert samkvæmt náttúruverndarlögum.

Munkselurinn, sem heldur m.a. til í Miðjarðarhafinu og Svartahafi, er eitt fágætasta sjávarspendýr jarðar. Í áratugi var talið að selurinn væri útdauður við strendur Króatíu en frá árinu 2005 hafa nokkur dýr haldið þar til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert