Menn með apagrímur hræða apa

Apar þykja mikil plága í miðborg Nýju Delí
Apar þykja mikil plága í miðborg Nýju Delí AFP

Yfirvöld í Indlandi hafa brugðist við óvenjulegum vanda á óvenjulegan hátt, en apakettir þykja mikil plága í miðborg höfuðborgarinnar Nýju Delí. Þeir þykja sérstaklega kræfir við þinghúsið og aðrar opinberar byggingar þar sem þeir ganga berserksgang, róta í rusli og ráðast jafnvel á fólk í leit að mat.

Indverjar deyja þó ekki ráðalausir, en nú hafa fjórir tugir sérþjálfaðra manna verið ráðnir til að dreifa sér um svæðið með apagrímur og láta öllum illum látum í því skyni að fæla apana burt. Fulltrúi félagsmálayfirvalda í Delí ítrekaði að mennirnir væru vel þjálfaðir og „mjög hæfileikaríkir“ í störfum sínum.

„Þeir ganga gjarnan með grímur, fela sig bak við tré og gefa frá sér hávær hljóð til að hræða apana í burtu,“ sagði fulltrúinn í samtali við AFP fréttaveituna.

Indverskir fjölmiðlar hafa slegið á létta strengi í tengslum við málið og velt vöngum yfir því hvers vegna halda þurfi öpum frá þinghúsinu, þegar þingmennirnir hagi sér sjálfir eins og apakettir.

Sérstakur viðbúnaður manna með apagrímur er við þinghúsið.
Sérstakur viðbúnaður manna með apagrímur er við þinghúsið. Ljósmynd/Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert