Þingið samþykkti lögsókn á hendur Obama

Barack Obama
Barack Obama AFP

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt að höfða mál á hendur Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, fyrir að fara út fyrir valdsvið sitt og seilast inn á svið löggjafarvaldsins við gerð heilbrigðislöggafarinnar sem kölluð er Obamacare.

Repúblikanar eru í meirihluta í fulltrúadeildinni og kusu þingmenn almennt samkvæmt flokkslínum. Lögsóknin var samþykkt með 225 atkvæðum á móti 201. Eiga lögmenn þingsins að útbúa skjöl málsins í fimm vikna þinghléinu sem hefst á föstudag.

Talið er að því verði haldið fram að Obama hafi farið út fyrir valdsvið sitt þegar hann gerði nokkrar breytingar á lögunum eftir að þau voru samþykkt. Repúblikanar segja að með því að hafa veitt ýmsar undanþágur hafi Obama farið á bak við þingið á þann hátt er samrýmist ekki stjórnarskrá Bandaríkjanna. Þá hafi hann einhliða frestað gildistöku hluta laganna er varðar skyldu vinnuveitenda til þess að veita starfsfólki sjúkratryggingu.

Pete Sessions, þingmaður Texas-ríkis, sagði forsetann hafa endurskrifað lögin án þess að fylgja stjórnarskrárbundnum hætti við lagasetningu. „Þetta snýst hvorki um repúblikana né demókrata. Þetta snýst um að verja stjórnarskrána sem við sórum eið um að verja,“ sagði John Boehner, forseti þingsins, við atkvæðagreiðsluna. „Engan hér þarf að minna á hvað stjórnarskráin segir um skyldu forsetans til þess að fylgja landslögum.“

Demókratar hafa hins vegar gagnrýnt málsóknina harðlega og segja hana vera af pólitískum toga og sóun á skattpeningum.  

Reuters greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert